Þegar ákvarðanir eru teknar þarf upplýsingar og þekkingu.

Burt séð frá því hvaða ákvarðanir eru teknar og hverjum þær reynast best þá eru gögn og upplýsingar grunnur rökræðunnar. Mikilvægt er að upplýsingar byggi á samræmdum og stöðluðum aðferðum þannig að nýta megi þær af þekkingu.

Sem sagt vitið er verði betra.

Í sjávarútvegi sem öðrum greinum er mikið magn upplýsinga að finna, upplýsingar sem eru grunnur að mörgum mikilvægum og afdrifaríkum ákvörðunum sem hafa áhrif á alþjóðasamskipti, samfélagið, fyrirtæki og einstaklinga.

Þorskflök í pækli ©Lárus Karl Ingason ljósmyndari

Ég hef eytt ómældum tíma í að skoða þær upplýsingar sem hafa verið og eru í boði um útflutning sjávarafurða og gert ótal tilraunir til að teikna upp myndir af þróun og nýsköpun til að styðja og styrkja fullyrðingar um framþróun og bætta nýtingu afla.

Fyrir rúmum áratug vann ég að verkefninu „Aukin verðmæti gagna“ sem má lesa um á heimasíðu Matís og skilaði að mínu mati og margra annarra góðum tillögum um úrbætur.

Þrátt fyrir áhuga þá tókst ekki að safna liði til að vinna að þessum úrbótum svo staðan er óbreytt, eins og hún hefur verið í marga áratugi.

Hugtakasafn fiskiðnaðarins sem er hér á síðunni er nokkurs konar hliðarafurð þessa verkefnis um aukin verðmæti gagna. Hugtakasafnið er hugsað til þess að samræma hugtakanotkun og vörulýsingar þannig að þegar talað er um ákveðnar vörur þá er enginn vafi á því hvað átt er við.

Tollskráin og útflutningsskýrslur eru grunnurinn að þeirri þekkingunni sem til eru og Hagstofan nýtir til að birta upplýsingar um verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Þetta ætti að sjálfsögðu að vera „vit inn og vit út“ en það er því miður ekki raunin og eitt mjög skýrt dæmi um veikar upplýsingar eru gögnin um léttsaltaða fiskinn.

Ég ætla svo sem ekki að fjalla mikið um léttsaltaðan fisk sem slíkan að þessu sinni. Heldur er hugmyndin sú að fjasa frekar um hvernig upplýsingar byggðar á tollnúmerum eru því sem næst handónýtar.

Fyrstu fréttir af léttsöltuðum fiski bárust í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Á þeim tíma var einn framleiðandi á Vestfjörðum sem var að framleiða lausfryst léttsöltuð flök fyrir Spánarmarkað.

Léttsaltaður frosinn fiskur var fyrst og fremst hugsaður sem ódýrari valkostur en útvatnaður hefðbundinn saltfiskur enda vinnsluferlið töluvert styttra og einfaldara.

Léttsaltaði fiskurinn sést ekki sem útflutningur fyrr en eftir 10-15 ár í framleiðslu

Í fyrsta lagi þá er tollskráin grunnurinn að gagnasöfnun um útflutning og það verður að segjast eins og er að þessi grunnur er verulega bilaður.

Tollskráin hefur lagalegt gildi og er henni einungis breytt á fimm ára fresti. Nýsköpun og nýjar afurðir komast ekki á skrá fyrr en eftir dúk og disk samanber léttsaltaða fiskinn sem var ekki sýnilegur sem útflutningsvara fyrr en eftir a.m.k. 10-15 ár í framleiðslu.

Sumar vörur verða aldrei sýnilegar og árangur í nýsköpun verður bara einhver mynd í hugum þeirra sem eldri eru.

Númerin sem eru notuð í tollskránni byggja á samræmdri vörulýsingar- og vörunúmeraskrá World Customs Organization (WCO) . Þetta skipulagða flokkunarkerfi er við lýði víðast hvar í heiminu og er til heilmikið efni um kerfið á netinu. Það er ekki ætlunin að útskýra það eitthvað nánar hér á síðunni í sjálfum sér.

Kerfið býður upp á nærri 100 kafla en við sem hugsum um fisk stöldrum oftast við í kafla 03: „Fiskur og krabbadýr, lindýr og aðrir vatna- og sjávarhryggleysingjar“. Einnig má finna ýmsar sjávarafurðir í köflum 5, 15, 16, 21, 23 og 41.

Íslenska tollskráin býður bara upp á átta stafa vörunúmer sem takmarkar verulega getu kerfisins til að gefa nægjanlega ítarlega mynd af því sem er að gerast.

Gott og vel en númerakerfið íslenska virkar ekki sem skyldi þar sem  vörulýsingarnar eru ansi oft illskiljanlegar og sýna í raun mjög takmarkaða vöruþekkingu þeirra sem semja textann.

Þessi tafla sýnir útflutning léttsaltaðra þorskafurða árið 2023

Léttsöltuð tollnúmer eru til fyrir þorsk, ufsa, löngu, blálöngu, ýsu, síld, keilu, öðrum fiski af þorskaætt og fiski ótöldum annarsstaðar. Númerin eru samtals tuttugu og sum hver lítið sem ekkert notuð.

Það væri fróðlegt að vita hvað þetta „í eða ekki í smásöluumbúðum“ þýðir. Hvað sker úr hvorum megin varan lendir?

Tollskráin og Hagstofan bjóða ekki upp á neinar orðskýringar.

Til að bæta gráu ofan á svart þá er ekkert eftirlit með hvernig útflutningur er skráður eða hvaða tollskrárnúmer er valið fyrir tiltekna vöru. Ég hef átt mörg samtöl við menn úr bransanum og þar er ítrekað verið að setja sambærilegar vörur undir mismunandi tollskrárnúmer.

Einn framleiðandi orðaði það þannig að „honum væri andskotans sama um hvaða númer væri notað svo framalega að varan kæmist út og í hendur kaupanda“.

Saltfiskur í verslun í Madrid

Það eru engin önnur lönd sem nota íslensku tollskrárnúmerin svo þau eru eingöngu til heimbrúks.

Innflytjendur erlendis nota þau númer sem þeirra tollskrá býður uppá eða segir til um.

Með öðrum orðum þá er þekking okkar á verðmætasköpun og þróun í sjávarútvegi mjög veik. Ég hef oft orðið vitni að því að sýndar eru glæsilegar glærusýningar á fundum og ráðstefnum byggðar á þessum gögnum og stórar yfirlýsingar um miklar framfarir fylgja í kjölfarið.

Svo ég haldi nú áfram með léttsaltaða fiskinn þá má sjá á myndinni hér fyrir ofan hversu kaótískt þetta kerfi okkar er. Í fyrsta lagi kemst þessi vara ekki á blað fyrr en mörgum árum eftir að útflutningur hófst og í öðru lagi fóru menn að rugla þessum vörum saman við hefðbundinn saltfisk.

Árið 2011 fengu framleiðendur upplýsingar um að saltfiskur í númerum sem byrja á 0305 mætti ekki innihalda fosfat og þá brugðu menn á það ráð að skrá léttsaltaða fiskinn sem almenn frosin flök.

Ég er nokkuð viss um að sumir framleiðendur eru að skrá léttsöltuðu flökin í tollskrárnúmer sem byrja á 0304 og hafa að geyma frosin flök. Þannig að í stuttu máli þá eru þessar tölur um léttsaltaða fiskinn meira og minna bull og staðfesta í besta falli að lítið mark er á þessum upplýsingum takandi.

Útvatnaður saltfiskur í verslun í Madrid

Að sjálfsögðu ætti allur þessi léttsaltaði fiskur að vera í kaflanum 0304 því varðveisluaðferðin er frysting en ekki söltun.

Tollayfirvöld á Spáni úrskurðuðu fyrir nokkrum misserum að þessi afurð skuli flokkast sem frosinn fiskur sem sagt í kafla 0304 en ekki sem saltfiskur eins og íslensk yfirvöld töldu rétt að gera.

Til gamans þá segir sagan að léttsaltaði fiskurinn hafi lent í saltfiskkaflanum 0305 vegna þess að eldri starfsmaður Tollsins sagði að mamma hans hefði alltaf kallað nætursaltaða fiskinn saltfisk og þar með lá sú ákvörðun fyrir að léttsaltaður fiskur er skráður sem saltfiskur í íslensku tollskránni án þess að vera það.

Skrifaðu ummæli