Í bitum á svarið að vera. En það er hægt að taka marga snúninga á þessari spurningu og yfirfæra hana á flest annað en að snæða fíl í bókstaflegri merkingu.
En ef maður tekur þetta aftur á móti bókstaflega og pælir í því hvernig maður borðar heilan fíl eða hvaða aðra skepnu sem er. Þá er að ansi mörgu að hyggja áður en hafist er handa við að brytja skepnuna niður í hæfilega og heilnæma bita – öll matvælafræðin og gott betur er undir í þeim pælingum.
Það er virkilega áhugavert að velta því fyrir sér hvað stór hluti dýranna sem við ræktum til matar eða veiðum telst matur, ég meina nútíma matur eitthvað sem er almenn sölu- eða markaðsvara og vit er í að borða.
Nú hef ég ekki yfirsýn yfir hlutfallslega nýtingu allra dýra sem við ræktum eða veiðum, ég þykist vita ýmislegt um fisk og nýtingu í þeim bransa. Þar eru tölur reyndar mjög breytilegar eftir því hvaða tegund á í hlut og á hvaða árstíma veiði fer fram.
Af því að hvalirnir hafa verið í umræðunni undanfarið þá væri áhugavert að vita hve stór hluti þessara risavöxnu skepna telst ætur hluti og hvað verður um allt það sem ekki er mannamatur.
Eftirfarandi mynd hef ég notað mikið þegar verið er að ræða nýtingu í þorskvinnslu en þar er ætíð miðað við slægðan fisk. Slóghlutfallið er nefnilega svo breytilegt eða frá því að vera 13% upp í 26% samkvæmt skýrslu sem Matís gaf út 2017 „Mælingar og nýting á slógi“.
Samkvæmt þessari mynd sem er nokkuð nærri sannleikanum að ég held þá erum við að borða innan við helminginn af slægðum þorski og rétt um 40% ef miðað er við óslægðan fisk.
Þá segja örugglega margir en við nýtum fullt af aukaafurðum til matar líka svo sem gellur, kinnar, hrogn og lifur. Vissulega lagar það heildarnýtinguna eitthvað, en engu að síður þá er ætur hluti þorsks innan við 50%.
Það sama á við um ansi margar fisktegundir, síldarflök eru t.d. um 45-50% af heilum fiski og karfaflök eru einungis um 30% af heilum fiski.
Ef litið er til fiskeldisins þá skilst mér að nýtingartölur fyrir lax og bleikju séu í kringum 60%.
Þegar hugtök eins og fæðuöryggi komst í hámæli þá voru það fyrst og fremst fulltrúar landbúnaðarins sem kölluðu eftir aukinni athygli þar sem þeir einir að því er virtist gættu að fæðuöryggi þjóðarinnar.
Sjávarútvegur var greinilega í hugum margra ekki að leggja neitt að mörkum þegar fæðuöryggi var annars vegar þrátt fyrir að framleiða mörg hundruð þúsund tonn af mat ár hvert.
Ef ég fer í smá samanburðarleikfimi á nýtingu, ætum hluta og fæðuöryggi, þá má sjá við lauslega athugun og smá lestur í „Kjötbókinni“ sem finna má á heimasíðu Matís og efni tengdu henni að lamb á fæti er um 40-45 kg. Dilkurinn sem svona lamb skilar er um 15-18 kg og þegar búið er að skera allt frá sem heitir bein, sinar og annað sem ekki er borðað þá skilar lambið um 8-10 kg af kjöti eða rétt um 20-25% af lambi á fæti.
Svo er komin ný skýrsla „Hlutfall kjöts, fitu og beina í lambakjöti – Efnainnihald lambakjöts og hliðarafurða“
Jú það er slatti af ætum aukaafurðum, slátur, lifur, nýru, hjörtu, svið og þess háttar, en það breytir ekki stóru myndinni svo mikið, frekar en aukaafurðir í fiskvinnslunni.
Sem sagt 1.000 lömb eru bara að skila 8-10 tonnum af mat það þarf ekki stórt frystihús til að skila þessu magni af mat fyrir hádegi.
Ég hef reyndar ekki hugmynd um nýtingu í hvalavinnslu en er samt nokkuð viss um að stærsti hluti hvers hvals er ekki mannamatur og sá hluti hráefnisins fer þá væntanlega til mjöl- og lýsisvinnslu sem fer í fóður eða hvað veit ég.
Einn hvalur sem er 40 tonn skilar kannski sambærilegu magni af mat og 1.000 lömb það er að segja ef ætur hluti hvals er í kringum 20-25%.
Það er alveg áhugavert að velta því fyrir sér hvað er skynsamlegt og æskilegt í veiðum og ræktun dýra til manneldis.
Því miður er ekki alltaf skynseminni fyrir að fara þegar við göngum á eða nýtum auðlindirnar okkar til að búa til mat. Við ruglum saman hefðum, ímynduðum réttindum, samfélagspólitík, umhverfi, búsetu, fjármunum, fæðuöryggi, matvælaöryggi, best í heimi heilkenninu og bara öllu sem hentar til að komast að niðurstöðu sem passar okkar sýn, skoðun eða hagsmunum.
En það er dagsatt að stærsti hluti hvers dýrs sem við ræktum eða veiðum er ekki hæfur til manneldis og því nauðsynlegt að finna þessu lífræna hráefni eða aukaafurðum, sem sumir kalla nú orðið „hliðarstrauma“, góðan, öruggan, heilnæman og síðast en ekki síst umhverfisvænan farveg.
Fyrr verður virðiskeðja þessara matvæla ekki í lagi og heilbrigð.
Fílnum má kannski líkja við virðiskeðju matvæla, sem við þurfum að borða (laga, bæta) í bitum?
Verkefnin framundan ná langt út fyrir hugmyndaflug nútímans svo ekkert annað á að vera í boði fyrir framtíðina en öflugt rannsóknar- og þróunrastarf.