Gott og vel skipulagt gæðaeftirlit sem skilar marktækum niðurstöðum mótar vinnuna framundan. Þannig verður til betri vara og betri vinnsla.

Það er dálítið magnað að heyra reglulega að eftirlit komi í veg fyrir frelsi til athafna og sé íþyngjandi fyrir rekstur fyrirtækja, framleiðslu vöru eða þjónustu.

Eftirlitsiðnaðurinn sé sem sagt allt að kæfa.

En eftirlit er bara miklu stærra en eitthvað vesen í huga einhverra „besserwissera“.

Gæðaeftirlit og allt sem því fylgir kann að hljóma flókið, viðamikið og krefjandi, en er það bara alls ekki ef litið er til ávinnings af góðu og vel skipulögðu gæðaeftirliti.

Eftirlit þarf að vera breytilegt og lifandi í takt við þróun og nýsköpun og má ekki verða steinrunnið „af því bara“ verkfæri.

Gæðaeftirlitið er í raun að fylgja því eftir að varan uppfylli öll þau skilyrði sem vörulýsing eða vinnsluleiðbeiningar segja til um og kaupandi eða neytandi vörunnar gerir ráð fyrir að fá.

Efst á listanum er að sjálfsögðu öryggi og þá sérstaklega matvælaöryggi. Enginn vill framleiða vöru sem getur skaðað viðskiptavinina og enginn vil kaupa vöru sem gæti skaðað heilsu og velferð fjölskyldunnar.

Með eftirliti er verið að greina allt ferli vörunnar og leita leiða til að framleiða heilnæma og örugga matvöru um leið og þekking verður til sem getur leitt til enn betri framleiðsluhátta og hagkvæmni.

Ég hef kynnst allskonar þegar eftirlit er annars vegar og fengið alveg að kljást við ótrúlegar uppákomur, sem ég segi kannski betur frá síðar.

En ég hóf mín störf sem matvælafræðingur 1981 hjá litlu fiskvinnslufyrirtæki sem framleiddi fyrst og fremst niðursoðna síld. Við vorum einnig að framleiða ýmsar fiskafurðir eins og lausfryst þorsk-, ýsu og kolaflök.

Á þessum tíma í þessu tiltekna fyrirtæki voru ekki til neinar vinnsluleiðbeiningar aðrar en þær sem menn höfðu í kollinum. Ég þurfti endalaust að spyrja spurninga um allt mögulegt sem viðkom vinnslunni.

Ég hamaðist fyrstu vikurnar við að skrá þetta niður, skrifa leiðbeiningar og vörulýsingar og í framhaldinu að hanna eftirlit og eyðublöð.

Það verður að segjast eins og er að mörgum sem þarna voru fannst þetta algjör fásinna að vera að þessu veseni. Þetta var allt skýrt og allir vissu eða áttu að vita hvernig hlutirnir virkuðu.

En ég var einmitt ráðinn til þess að koma skikki á framleiðsluna og reyna að koma í veg fyrir ítrekuð kostnaðarsöm mistök sem höfðu átt sér stað á árum áður.

Þessi dós var framleidd fyrir Sovétríkin

Á þessum tíma var í gildi reglugerð um eftirlit og framleiðslu á lagmeti til útflutnings og í henni voru ýmis atriði sem áttu að tryggja það að gallaðar vörur kæmust ekki á borð neytenda erlendis.

Í fyrsta lagi átti að vera innan lagmetisfyrirtækja framleiðslustjóri sem hefði nægjanlega faglega þekkingu til að bera ábyrgð á vinnslunni.

En þrátt fyrir alls konar tilmæli um hitt og þetta í reglugerðinni þá voru mörg fyrirtæki í þessum bransa að lenda ítrekað í vandræðum og kostnaðarsömum mistökum. Svo reglugerðin sem slík leysti engin vandamál ef eftirliti og stjórnun var ekki sinnt sem skyldi innan fyrirtækjanna.

Samkvæmt umræddri reglugerð var öllum lagmetisfyrirtækjum skylt að taka sýni samkvæmt stöðlum frá Codex Alimentarius af framleiðslu hvers dags og senda til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins (Rf).

Samkvæmt þessari töflu sendum við 21 dós til Rf hvern einasta framleiðsludag þar sem við framleiddum að jafnaði 30-35.000 dósir á átta tímunum.

Útflutningsleyfi fyrir hvern framleiðsludag voru síðan gefin út byggð á niðurstöðum þessa afurða eftirlits Rf.

Sumum fannst þetta bara nógu andskoti íþyngjandi eftirlit og ekki á bætandi að ég væri líka að brölta með allskonar athuganir og skráningar á meðan vinnslu stóð.

Það var haft á orði að ég myndi nú ekki endast lengi í þessu starfi mínu sem framleiðslu- og gæðastjóri ef ég veldi ekki sýnin sem færu til Rf, en það hafði víst tíðkast að einhverju leyti í gegnum tíðina. Greinilega með ekkert alltof góðum árangri.

Mitt markmið var aftur á móti að byggja upp eftirlit og eftirfylgni sem virkaði. Mér tókst nokkuð fljótlega að koma framleiðslunni á þann stall að framleiðslan rann athugasemdalítið í gegnum afurðaeftirlit Rf.

Sérstakur lagmetiseftirlitsmaður Framleiðslueftirlits sjávarafurða eins og það hét þá kom svo reglulega í heimsókn til að kanna stöðu mála.

Að auki komu fulltrúar okkar helstu kaupenda reglulega í heimsóknir. Við framleiddum t.d. vörur fyrir bandaríska herinn sem sendi þá til okkar eftirlitsmann. En sá kenndi mér æði margt um gæðaeftirlit, sýnatökur, skráningu og góða framleiðsluhætti. Hans nálgun á verkefnið var mjög jákvæð hann var fyrst og fremst með hugann við að laga og bæta. Svo hann reyndist í raun mjög flottur kennari.

Margar af okkar vörum voru merktar sem Kosher vörur og til þess að mega nota svokallað O-U merki  sem gefur til kynna að varan uppfyllti skilyrði Gyðinga og reglur þeirra um matvæli og framleiðsluhætti þá þurftum við að taka á móti eftirlitsmanni sem kom til að sannreyna að við stæðumst þeirrar sérhæfðu kröfur.

Kosher merki

Allt þetta eftirlit og afskipti kaupenda og hins opinbera af framleiðslunni gerði framleiðsluna bara betri. Og þegar upp var staðið og þó ég segi sjálfur frá þá var eftir því tekið að framleiðsla okkar stóðst ávallt nána skoðun Rf og okkar viðskiptavina.

Það er í raun magnað að öll lagmetisfyrirtækin landsins hafi verið skylduð á þessum árum til að senda tiltekinn fjölda eininga til Rf til skoðunar svo gefa mætti út útflutningsvottorð fyrir hvern og einn framleiðsludag.

Þessi sérkennilega útfærsla opinbers eftirlits kom reyndar ekki til af góðu og má lesa allnokkrar krassandi sögur á timarit.is um gæðavandamál lagmetisfyrirtækja og munið að það rataði ekki allt í fréttirnar.

Með svona útfærslu á útflutningseftirliti var ekki ráðist á vandann heldur virkaði þetta meira eins og það opinbera væri að friða eigin samvisku og staðfesta að fyrirtækjunum væri ekki treystandi til að bera ábyrgð á eigin vinnslu.

Þessi reglugerð og svona heftandi umhverfi heyrir sem betur fer sögunni til.

Brislingur í gleri, mynd tekin í verslun í Kaupmannahöfn

Síðar á ferlinum kynntist ég eftirliti og kröfum fyrirtækja sem áttu stór og heimsfræg neytenda vörumerki. Þá var nú ekki nóg að benda á eigið eða opinbert eftirlit, reglugerðir o.þ.h.

Sérfræðingar þessara kaupenda voru með mun ítarlegri kröfur en almennt var miðað við. Þeir vildu tryggja með öllum ráðum eigið vörumerki og hin miklu verðmæti sem felast í gæðaímynd, öryggi og áreiðanleika.

Skrifaðu ummæli