Vigtun er ekkert smá mál og í raun töluvert flókið umfjöllunarefni. Það er í sjálfum sér ekki snúið að vigta einn hlut á góðri vog en þegar um er að ræða allskonar mismunandi aðstæður, ólíkar afurðir og óteljandi fjölda eininga þá vandast málið.

Það þarf ekki annað en að lesa um vigtun og skráningu afla til að sjá að það er ekki svo einfalt mál að vigta. (Sjá reglur um vigtun afla)

En ég ætla ekki að fjalla um vigtun og skráningu afla að þessu sinni heldur rifja aðeins upp fyrstu kynni mín af því að vigta rétt og svo tek ég vafalítið yfirvigtunarmálin í fiskvinnslunni fyrir síðar.

Ég hóf minn starfsferil í fyrirtæki sem framleiddi fisk í neytendapakkningum það er niðursoðna léttreykta síld aðallega undir norska vörumerkinu King Oscar. Sú vara sem við framleiddum mest af var merkt „NET WT. 3¼ OZ“ en únsan er 28,35g sem þýðir að innihald hverrar dósar átti að vera rétt rúm 92g.

Það segir sig sjálft að ómögulegt er að framleiða tugi þúsunda dósa á dag með nákvæmlega þessari merktu þyngd. Á þessum tíma var tæknilega vonlaust að vigta hverja einustu dós svo það þurfti að finna einhverja reglur til að miða við og eftirlit til að vinna með.

Þessi mynd er tekin í Síldarminjasafninu á Siglufirði og þar má sjá einar sjö dósir með léttreyktri síld frá þeim tíma sem ég vann í Norðurstjörnunni hf í Hafnarfirði.

Það voru ekki vélar sem skömmtuðu í dósirnar heldur voru það um 20 konur sem stóðu við færiband og röðuðu síldarflökunum í dósirnar í akkorði. Þær höfðu litlar ryðgaðar mekanískar bréfavogir við höndina til að vigta eina og eina dós svona til að stilla sig af. Það var ekki búið að finna upp nothæfar „digital“ vogir á þessum tíma. Konurnar höfðu heldur engan tíma til að vigta hverja dós enda stefnt hátt í að ná upp hraða og hærra kaupi svo sjónmat við áfyllingu var að mestu látið ráða.

Það hafði verið viðvarandi vandamál í verksmiðjunni að ná upp stöðugleika í vigtun og töluvert um kvartanir og vesen vegna undirvigtar. Vinnan mín í fyrstu var því að setja upp sýnatökuplön, X og R kort, meta leyfð frávik, staðalfrávik og allskonar tölfræði vesen til að geta fullyrt að varan stæðist kröfur okkar markaða.

Til þess að gefa smá hugmynd um stöðuna þá þurfti ég að vigta margar dósir já mjög margar dósir á hverjum einasta degi. Ef vigtunin var út úr korti þá þurfti ég að ræða við allar konurnar tuttugu, já það voru bara konur sem unnu þessi störf. Það var engin vél sem hægt var að endurstilla heldur þurfti að ræða málin. Það gat reynst erfitt að auka vandvirknina með samtali en á sama tíma haldið uppi ásættanlegum afköstum.

Ég krafsaði mig í gegnum allskonar gæðaeftirlitsfræðibækur sem ég fékk að láni hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Ég stúderaði sýnatökuplön og ýmislegt tölfræðitorf til að hanna eftirlit sem stæðist skoðun og hægt væri að treysta.

Ég átti Texas Instrument „tölvu“ og tölfræðikupp sem ég gat sett í vélina. Þannig gat ég fengið allskonar spennandi niðurstöður eftir að ég mataði vélina með haug af tölum. Oftar en ekki gafst tími í einn kaffibolla eða svo meðan litla vélin hamaðist við að búa til einhverjar misgáfaðar niðurstöður.

Á þessum tíma voru íslensku reglurnar þær að það væru vörusvik ef neytandi fengi dós sem innihéldi minna magn en 92 g, sem sagt miða ætti við að merkt þyngd væri lágmarksþyngd.

Eins og svo margt í tilveru okkar þá dreifðist þyngdin samkvæmt staðalkúrfu og ef vigtunin var ónákvæm og kúrfan flöt þá þurfti að setja meira í dósirnar og hækka meðaltalið svo ekki væri nein dós undir 92g.

Við þurftum ekki bara að passa okkur á undirvigtinni því yfirvigtin var hráefnislega dýr og svo bólgnuðu dósirnar ef sett var of mikið í þær rúmmál dósanna var jú bara 112 ml. Dósirnar lokuðust illa ef of mikið var sett í þær og lokunargallar jukust. Dósirnar gátu einnig fests í vélunum og tafið vinnsluna og hver kaupir svo bólgnar niðursuðudósir – vonandi enginn.

e-merkið þarf að standast ákveðin mál

Mikið varð ég hamingjusamur þegar ég eignaðist leiðbeiningabókina „Code of practical guidance for packers and importers; Weights and Measures Act 1979“ um vigtun neytendavöru í Bretlandi en leiðbeingarnar voru byggðar á reglum Evrópusambandsins. Í bókinni var farið vel yfir svokallaðar e-vigtunarreglur. Ég hef örugglega ekki lesið neina bók jafn oft og ítarlega.

Það var farið mjög skipulega í gegnum þessar nýju reglur í bókinni og sýnatökuaðferðir útskýrðar. Fjallað var um hvernig ætti að ákveða áfyllingarþyngd miðað við þyngdardreifingu framleiðslunnar og margt margt fleira, algjör himnasending þessi bók.

Og svo bættist á hamingjuna þegar ég fékk amerísku bókina „NIST Handbook 133“ (Checking the Net Contents of Packaged Goods) bandaríska útfærslan á vigtun pakkninga.

NB. það var ekkert gúgl á þessum tíma, ég þurfti að nota „maður þekkir mann sem þekkir annan mann sem vissi eitthvað“ aðferðina og þá komu sérfræðingarnir á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (síðar Matís) sterkir inn og lögðu mér lið í þessum þyngdarvandamálum.

Evrópsku og amerísku reglurnar miðuðu ekki við lágmarksþyngd heldur skyldi meðaltals þyngd lotunnar sem unnið var með standast merkta þyngd og ákveðin frávik voru leyfð. Þannig að tiltekinn fjöldi eininga mátti jafnvel vera undir merktri þyngd.

Þetta gerði það að verkum að ekki þurfti lengur að yfirfylla dósirnar jafnmikið. Þessar reglur höfðu það að markmiði að sætta sjónarmið framleiðenda og kröfur neytenda og vera báðum til hagsbóta.

Lesa má meira um lagmeti, vigtun og e-reglurnar í lagmetishandbókinni.

Þar sem nánast öll framleiðslan var flutt út þá var ég ekkert að pæla lengur í íslenskum reglum og miðaði allt mitt vigtunareftirlit við reglur markaðanna sem við seldum vörurnar okkar á.

Reyndar lenti ég aldrei í neinu áþreifanlegu veseni hér heima nema smá þrasi við ofursamviskusama fulltrúa eftirlitsins sem höfðu alltof óskýrar reglur og reglugerðir til að styðjast við.

Til þess að fá upplýsingar um nettóinnihald og reglurnar þar um er fínt að byrja á heimasíðu Matvælastofnunar.

Svona bara til að setja verðmæti á svona reglur sem eru skýrar og afdráttarlausar þá gátum við minnkað áfyllingarþyngdina um ca. 6-8 g á dós. Þessi sparnaður á hráefni gaf okkur aukalega hráefni í um 3-400.000 dósir á ári sem er álíka mikið magn og við gátum framleitt á 10-15 dögum.

Við fengum svo nokkru síðar sænska færabandavog sem vigtaði hverja dós og setti þær dósir til hliðar sem ekki stóðust viðmið þannig að hægt var að taka smá síldarbita úr of þungum dósum og bæta í þær sem voru of léttar.

Að koma skikki á vigtunina skilaði okkur miklum verðmætum og ekki bara í bættri nýtingu því ég er nefnilega sannfærður um að þessi tiltekt í vigtunarmálum hafði mjög jákvæð áhrif á alla aðra gæðaþætti framleiðslunnar. Stórar kostnaðarsamar og alvarlegar kvartanir heyrðu nú sögunni til.

Öflugt og vel útfært gæðaeftirlit er lykillinn að bestu og verðmætustu mörkuðunum svo í mínum huga er tíma varið í eftirlit og vöruskoðun vel varið.

Þegar gæðin er í föstum og vel skipulögðum ferlum þá gefst tími til vöruþróunar og hér fyrir neðan eru nokkrar af þeim nýju vörum sem ég og félagar þróuðum og settum á markað reyndar með soldið misjöfnum árangri þó.

Skrifaðu ummæli