Póstur nr.3

Að loknu námi í matvælafræði 1981 fékk ég vinnu í Norðurstjörnunni hf í mínum heimabæ Hafnarfirði, en þetta fyrirtæki var byggt á norskum grunni og framleiddi aðallega niðursoðna léttreykta síld undir heimsþekkta norska vörumerkinu King Oscar.

Auðvitað kunni ég ýmislegt fyrir mér í niðursuðufræðum þegar ég tók það að mér að vera framleiðslu- og gæðastjóri en sem betur fer var fullt af reynslumiklum starfsmönnum til staðar sem kunnu þetta allt saman meira og minna. Ég fékk góðan stuðning og fræðslu strax frá byrjun.

Þeir sem fyrir voru í fyrirtækinu  lumuðu á góðum skammti af sögum um framleiðslu fyrri ára. Ein sagan var um að fundist hefðu glerbrot í allnokkrum niðursuðudósum og þrátt fyrir mikla leit að skýringum þá fundust aldrei nein glerbrot annars staðar og engar afgerandi niðurstöður fengust.

Þessi uppákoma leiddi til þess að töluvert af vöru var fargað og strangt bann var sett á gler og glerflöskur þar sem unnið var við framleiðsluna. Á þessum tíma var ekki búið að finna upp nútíma umgengnisreglur og fiskur var varla kominn með þann status að vera matvæli.

Þessi mynd er tekin á Síldaminjasafni Íslands á Siglufirði en þar má sjá nokkrar dósir sem framleiddar voru í Norðurstjörnunni hf í Hafnarfirði. Þó þarna megi sjá sjö mismunandi dósir frá okkur þá framleiddum við sömu vöruna undir u.þ.b. 20 mismunandi vörumerkjum. Ég geymdi sýnishorn af þeim öllum forðum daga en líklega eru þau öll glötuð, verksmiðjan var jú rifin og íbúðablokkir á Norðurbakkanum komnar í staðinn.

Eftir að ég tók til starfa gerðum við heilmiklar endurbætur á eftirliti og skráningu. Ég opnaði og skoðaði töluvert magn af dósum hvern einasta dag til að fylgjast með gæðum og breytileika framleiðslunnar.

Við skoðun einn daginn tók ég eftir því að hörð korn eins og sandkorn og fínar nálar sem líktust gleri voru í nokkrum dósum.

Já einmitt, var nú nýi gæðastjórinn búinn að klúðra málum. Mér var verulega brugðið. Hvernig gat það gerst að glerbrot komst í vöruna? Við stjórnendurnir höfðum fylgt því mjög fast eftir að ekkert gler væri á svæðinu. En á þessum tímum var reyndar mest allt gos í gleri og því nokkur hætta á að starfsmenn hefðu með sér hressingu inn á vinnslusvæðið.

Ég hamaðist við að opna nokkrar dósir skjálfhentur og með dúndrandi hjartslátt. Í örfáum dósum til viðbótar voru svona sandkorn og fínar nálar. Ég gat ekki séð hvernig það stæðist að glerflaska hefði brotnað með þessum hætti og mengað þessar dósir. Ég fann heldur ekki nein stærri glerbrot. Var virkilega einhver að mylja gler og dreifa í dósir?

Ég verð að játa að ég hafði litla hugmynd um hvað gera skyldi eða hvað var í raun að gerast. Beið það mín að láta henda framleiðslu dagsins um það bil 35.000 dósum?

Þeir sem eldri voru í fyrirtækinu sögðu mér að þetta væri svipað og uppákoman um árið þegar þúsundum dósa var hent vegna glers sem fannst í nokkrum dósum og því ekkert annað fyrir mig að gera en láta henda þessum framleiðslu þessa dags hið minnsta.

Mér fannst þessi uppákoma ekki alveg lógísk og því nauðsynlegt að skoða þetta nánar. Ég fór með nokkrar dósir á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem í dag er Matís og þar var farið yfir málið með mér.

Eftir ítarlega skoðun og prófanir þá reyndust þetta vera svokallaðir strúvít kristallar sem komu mér úr jafnvægi. En þessir kristallar geta við sérstakar aðstæður myndast í niðursoðnum fiski og eru hættulausir með öllu og því ekkert tilefni til að henda þúsundum dósa.

Tilvist svona kristalla voru alveg nýjar fréttir fyrir mig og reyndar alla þá sem unnu með mér og höfðu soðið niður síld í áratugi.

Við seldum yfir 35 milljónir dósa á þessum árum sem ég starfaði í Norðurstjörnunni og við fengum aldrei kvartanir um „glerbrot“ eða kristalla þó þeir hafi örugglega verið oftar til staðar en gæðaeftirlitið mitt gaf til kynna.

Svona til viðbótar má geta þess að nýrnasteinar eru með sömu efnasamsetningu og eru þeir í raun og veru strúvít kristallar. Vonandi duga þessi kynni mín af strúvít út lífið því mér skilst að nýrnasteinar valdi mun meiri líkamlegum kvölum en strúvít kristallar í niðursoðnum fiski.

Almennt um strúvít er það að segja að þessir kristallar geta verið líkir glerbrotum við fyrstu sýn og finnast stöku sinnum í niðursoðnum fiskafurðum eins og túnfiski, laxi, makríl, síld og rækju.

Strúvít er tiltölulega einfalt efnasamband og getur myndast þegar ákveðnar aðstæður eru til staðar. Það eru ekki nein ein skilyrði sem valda þessu þannig að það er fátt hægt að gera til að koma í veg fyrir myndun strúvít, efnin sem mynda kristalinn eru öll náttúrulega til staðar í þessum fiskafurðum.

Strúvít og kvartanir vegna þess eru afar sjaldgæfar þegar horft er til þess gríðarlega magns sem framleitt hefur verið af niðursoðnu sjávarfangi í gegnum tíðina. Það er ekki hættulegt að borða strúvít, kristallarnir brotna auðveldlega niður í meltingarveginum.

Strúvít getur litið út eins og gler en við nánari skoðun í stækkunargleri þá sést að kantarnir eru sléttir og reglulegir en kantar á glerbrotum eru hvassir og óreglulegir. Strúvít kristallar eru mýkri en gler og auðvelt að rispa þá og mylja, einnig leysast þeir auðveldlega upp í sýru eins og ediki eða sítrónusafa, meðan gler gerir það ekki.

Skrifaðu ummæli