Það verður að segjast eins og er eða þannig, að flest sem við gerum er með því besta í heimi ef ekki það allra besta að okkar mati. Íslenskar fiskveiðar, íslenskur fiskur og íslensk fiskvinnsla er þar engin undantekning.

Ef það slysast inn eitthvað sem við erum ekki best í þá er það eitthvað sem skiptir ekki máli eða þá ekki tímabært að hugsa um það.

Svo asnaðist maður til að fara til útlanda til að vinna þar og búa og þá kom í ljós að ansi margt í útlandinu var bara mjög gott og æði margt reyndist bara töluvert betra en það sem maður hafði kynnst áður.

Maturinn í útlöndum var t.d. bara fjandi góður og oft betri en sá íslenski. Eða kannski var hann bara allskonar alveg eins og sá íslenski, góður og minna góður og allt þar á milli.

Matur verður nefnilega ekki góður vegna upprunans heldur vegna þeirra meðhöndlunar og umhyggju sem hann fær.

Eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan þá þarf vandvirkni og umhyggju í snyrtingu til að láta þessi flök standast skoðun kaupenda.

Þetta best í heimi heilkenni okkar dregur kannski úr árvekni og við endum sem bara meðal og þaðan af lélegri ef við teljum okkur endalaust trú um að við séum best í öllu.

Á árum mínum í Þýskalandi heimsótti ég nokkrum sinnum einn stærsta matvælaframleiðanda í heimi sem vann úr tugþúsundum tonna af frystum fiski alls staðar að úr heiminum.

Þessi kaupandi er með mjög ítarlegar úttektir á öllu því hráefni sem fer til vinnslu hjá þeim enda eru vörumerki þeirra gríðarlega verðmæt og engir sénsar teknir.

Fyrirtækin sem selja þeim vörur eru flokkuð eftir þessum úttektum. Þau sem standa sig best þurfa minni skoðun en þau sem eru ítrekað með gæðavandamál.

Reglulega tóku þeir saman lista yfir árangur og gæði allra hráefnisframleiðenda og við sem erum ávallt best í heimi, vorum ekki á toppnum heldur bara svona meðaljónar.

Á myndinni hér fyrir neðan sést m.a. hvaða þættir það eru sem eru skoðaðir og metnir áður en vara kemst inn á þeirra vinnslulínur.

Ég er ekkert að fara ofan í saumana á öllum þeirra gæðaskilgreiningum og viðmiðum það er alltof löng og flókin samantekt fyrir svona spjall.

En í pökkunarreglum þeirra er að finna eftirfarandi um gæðaeftirlit og skráningu:

Framleiðandi vöru ábyrgist að til staðar sé ítarlegt gæðaeftirlit í samræmi við HACCP. Gæðaeftirlitið verður að hafa á staðnum ítarlegar upplýsingar um uppruna hráefnis svo sem veiðar, skip og löndun. Einnig skulu vera til staðar allar gæðaupplýsingar um ferli og eftirlit á meðan á framleiðslu stendur.

Það á að vera mögulegt að fá afrit af öllum gæða- og framleiðsluskýrslum.

Framleiðandi á að ábyrgjast að eftirlitsaðili frá kaupanda geti komið á framleiðslustað og tekið út vinnslu og eftirlit.

Svo koma upplýsingar um öll atriðin sem skal skoða og hvaða viðmið gilda við hvert og eitt þeirra.

Þetta er sko er ekkert lítil úttekt fyrir hverja einustu lotu sem keypt er og það er þörf á allskonar sérþekkingu til að vinna þessi verk.

Við framleiðslu sjávarafurða er þörf á mikilli kunnáttu, vandvirkni og þekkingu allt frá veiðum og á borð neytenda.

Svo það má eiginlega segja að kassi af fiski sé á endanum kassi fullur af þekkingu.

Svona þekking byggir á rannsóknum, þróun og menntun svo þar má ekki slaka á.

Ég fékk nokkrum sinnum að taka þátt í svona skoðun á vöru þegar upp kom ágreiningur eða kvartanir vegna gæða okkar framleiðslu.

Það var aðdáunarvert að fylgjast með þessari vinnu, skipulagning og afköst voru með eindæmum.

Niðurstaðan er einföld við erum ekki og verðum ekki best í heimi sama hversu oft við syngjum þann söng það gerist nefnilega ekki neitt nema maður geri eitthvað.

Við erum samt bara nokkuð góð svona oftast nær og sem betur fer þá getum við orðið betri og þar eigum við að vera og verða betri.

Skrifaðu ummæli