Eins og nokkrum sinnum hefur komið fram þá hóf ég feril minn í niðursuðuverksmiðju í Hafnarfirði sem hét Norðurstjarnan. Þar voru næg verkefni fyrir nýútskrifaðan matvælafræðing, flest í fyrirtækinu gat bara orðið betra.
Aðalafurð fyrirtækisins var léttreykt síldarflök í 92g dósum. Varan var nánast alltaf eins, dósirnar gráar áldósir ¼ oblong 112 ml, búnar til (slegnar) á staðnum en gráu állokin voru flutt inn frá Noregi.
Þessum ómerktu dósum var síðan komið fyrir á milli-lager um tíma og síðan var hverri dós pakkað í áprentað sellófan.
Vörumerkin voru allskonar flest þó norsk að uppruna og var King Oscar það þekktasta, síðan tóku við vörumerki eins og Viking Delight, Crown Prince, Iceland Waters og mörg, mörg fleiri. Alltaf sama dósin en mismunandi ytri umbúðir.
Að vera með staðlaða vöru inn á lager sem gat farið í nánast hvaða vörumerki sem var gaf okkur töluvert svigrúm og þægindi. En vélarnar sem voru að pakka dósunum í sellófanið áttu það til að bila og þær voru nokkuð flóknar í viðhaldi.
Svo við fórum að kanna möguleika á að fá prentuð lok fyrir dósirnar til að spara okkur þetta pökkunarferli.
Það var þá sem ég sá í fyrsta sinn vöruheitið „Soft Cod Roe“, en áprentuðu prufulokin sem við fengum frá okkar norska birgja voru merkt þessu torkennilega vöruheiti.
Ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta var, hélt í fyrstu að þetta væri einhvers konar útfærsla á niðursoðnum þorskhrognum. Með því að spyrja mann og annan þá áttaði ég mig á því að „Soft Cod Roe“ voru svil eða kynkirtlar karl-þorska.
Á þessum tíma var ekki nokkur maður hér á landi að nýta þetta hráefni til eins eða neins.
Ég fékk þó að vita að á árum áður höfðu menn nýtt svil úr síld og að í Norðurstjörninni voru einmitt framleidd niðursoðin síldarsvil, reyndar löngu fyrir mína tíð. Niðursoðin þorsksvil voru aftur á móti nýlunda að því að mér skildist en það reyndist röng ályktun.
Síldarsvil eru meira svona eins og lítil fisklifur í laginu meðan þorsksvil eru óregluleg í lögun svona eins og samhangandi klasi af skeifulaga einingum.
Ég hafði aldrei skoðað eða séð þorsksvil þegar ég fékk fyrstu prufuna frá Grindavík. Mér fannst þetta mjög áhugavert hráefni, en breytileiki í stærð, lögun, lit og þroska var allnokkur. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig best væri að flokka og vinna þetta hráefni.
Félagar sem voru erlendis fengu það verkefni að finna „Soft Cod Roe“ dósir í verslunum og senda okkur svo við gætu reynt að átta okkur á því hvernig væntanleg samkeppni var að standa sig.
Eftir allnokkrar tilraunir og æfingar þá tókst okkur að vinna þetta hráefni og búa til áhugaverða vöru. Sýni voru síðan send á líklega viðskiptavini og bingó – gæðin voru fín og varan samþykkt.
Þá var bara eftir að plana hvað við gætum framleitt mikið og hvenær mætti búast við að fyrsta sending væri klár.
Þorsksvil er vertíðarvara svo það þurfti að skipuleggja og plana þetta vel það voru ekki til neinar vinnsluleiðbeiningar hér á landi. Það var búið að segja mér að ekki væri hægt að nota fryst svil í þessa framleiðslu. En með léttum tilraunum var sú fullyrðing afsönnuð hið snarasta og þá voru plön og framleiðslustýring mun þægilegri.
Það var ekki alltaf auðsótt að fá svil. Þeir sem voru að slægja í landi voru ekki alltaf til í verkefnið að útvega svil af góðum gæðum svo við auglýstum í Mogganum eftir sviljum.
En fyrstu svilin fengum við frá Grindavík, þau þurfti að flokka, hreinsa, þvo og snyrta áður en skömmtun í dósir gat hafist.
Afköstin í byrjun voru ekki upp á marga fiska, það þótt erfitt að skammta rétt magn í dósir. Litur og útlit var ekki alltaf eins og að var stefnt, svilin gátu verð bleik eða rauðleit sennilega vegna slælegra vinnubragða við blóðgun. Þessi rauðleiti blær gerði það að verkum að svilin urðu dökk eftir suðu.
Utan um svilin var töluvert „slím“ sem smitaðist yfir á dósirnar og olli því að dósir runnu ekki eins lipurlega inn í lokunarvélar og áður. Dósirnar áttu það til að festast í vélunum og þá þurfti að hægja á vinnslunni og þrífa vélarnar áður en hægt var að halda áfram.
Sumir starfsmenn áttu erfitt með að vinna með þetta hráefni einhverra hluta vegna og óskuðu gjarnan eftir öðrum verkefnum meðan þessi vinnsla var í gangi.
Þannig að það voru allskonar úrlausnarefni sem fylgdu þessari nýju vöru.
Smátt og smátt lærðist þetta og niðurstaðan var bara fín vara sem við seldum í nokkrum magni til Bretlands undir 3-4 mismunandi vörumerkjum.
Niðursoðin svil eru bara allt í lagi matur, týpískt fiskbragð og áferðin svona la-la. Ódýr og hollur matur.
Síðar kom ég að því að senda fersk svil til Japans, en þar er þessi vara þekkt að sjálfsögðu. Matreidd með ýmsum hætti og þykir mikill herramannsmatur ef litur og ferskleiki er í hæstu hæðum.
Samkvæmt upplýsingum á Hagstofunni kemur fram að á þessari öld hafa verið flutt út um 165 tonn af niðursoðnum þorsksviljum, sum árin nokkur þúsund kíló og önnur ár ekki neitt, svo þetta eru ekki mjög stórar tölur í stóra samhenginu.
Samkvæmt nýtingartölum þá má gera ráð fyrir að hrogn og svil séu um 2% að meðaltali af heilum óslægðum þorski en árið 2023 var þorskaflinn um 220 þús. tonn svo hrogn og svil ættu að vera um 4.400 tonn. Ef kynjaskiptingin er jöfn þá eru svilin 2.200 tonn fyrir árið 2023.
Eitthvað hefur verið flutt út ferskt og fryst en það er alveg nóg til í þetta annað sem reyndar á eftir að finna hvað gæti verið.
Þegar ég kom galvaskur í frystihús í gamla daga stútfullur af nýjum hugmyndum og lausnum þá var nú oftar en ekki tekið á móti mér með þeim orðum að þetta og hitt hefði verið reynt áður með misjöfnum árangri.
Að sjálfsögðu var líka búið að reyna niðursuðu á þorsksviljum áður en ég kom þessari vinnslu á koppinn í Norðurstjörnunni þó ég hafi ekki vitað af því. Í Hagskýrslum frá 1973 kemur nefnilega fram að flutt hafi verið út rúm 11 tonn til Bretlands það árið.
Þetta er allt eins, fátt nýtt og flest margreynt en aðalmálið er að vera með réttu vöruna á réttum tíma á réttum stað á réttu verði.
Kannski er hægt að búa til réttu vöruna úr sviljunum fyrir rétta markaðinn á rétta verðinu – hver veit ? Þetta er alla vega áhugavert efni til matar eða annarrar vinnslu.
Í þessum vangaveltum um svil þá rakst ég á áhugaverða og nýja grein „ Using cod sperm in the development of new products“ hjá rannsóknastofnuninni Nofima í Noregi þar sem verið er að vinna að nýjum leiðum til að vinna þetta hráefni í verðmætar afurðir.
Fyrir forvitna er alveg tilvalið að gúgla með því að slá inn „soft cod roe“ eða „cod milt“ það koma upp mjög áhugaverðar hugmyndir að uppskriftum og notkun.