Fiskar, krabbadýr og lindýr innihalda frá náttúrunnar hendi um það bil 80% vatn. Það sem út af stendur er þá fyrst og fremst prótein og fita.

Þetta er kannski ekki alveg svona fyrir fituríkari tegundirnar sem geta innihaldið mun minna vatn.

Aftur á móti er prótein almennt á svipuðu róli í öllum sjávarafurðum eða um 15-20%.

Eins og kom fram í póstinum um „Svik og svindl“ þá er ekki bara verið að svindla með tegundir. Það er vel þekkt að vatni er bætt í sjávarafurðir jafnvel svo miklu að hlutfall vatns og próteina er í engu samræmi við það sem eðlilegt getur talist.

Það er ekki bara verið að bæta við hreinu vatni heldur þekkist að notuð séu allskonar aukefni án þess að það sé tekið fram sérstaklega.

Nokkrar leiðir eru farnar til að ná „betri“ nýtingu:

  • Það er t.d. ekki tekið tillit til íshúðar við vigtun, sama verð fyrir fisk og vatn
  • Fiskflök er sprautuð með veikum saltpækli
  • Fiskflök eru látin liggja í ískraba sem inniheldur salt
  • Í mörgum tilvikum er um fosfatblöndum að ræða –polyfosfati, trifosfati bætt í pækilinn
  • Einnig eru þekkt dæmi um notkun sítrónusýru
  • Stundum sést notkun bindiefna eins og carragenan og fleiri slíkra efna

Í gegnum árin hefur verið nokkuð um það að framleiðendur séu ekki að fylgja reglum varðandi íshúðun. Taka t.d. ekki fullt tillit til hlutfall íshúðar og láti neytandann þar með borga fiskverð fyrir hluta vatnsins sem notað er til að verja fiskinn. Sjá nánar póstinn „Íshúð – vatn sem umbúðir“.

Það er auðvelt að meta íshúðina sem er utan á bitum og flökum og magngreina ef fylgt er leiðbeiningum.

Öðru máli gegnir um vatnið sem er bætt við með sprautun eða pæklun, neytendur hafa ekki sömu möguleika á að greina slíkt.

Hér er verið að sprauta uppþídd ufsaflök

Þess vegna er framleiðendum skylt að merkja vöruna og tilgreina viðbætt vatn og önnur efni sem ekki tilheyra vörunni frá náttúrunnar hendi.

Vandamálið varðandi vatnsaukandi vörusvik er í sjálfum sér er ekki viðbætta vatnið heldur er það að segja ekki satt og rétt frá og þar með láta neytandann greiða fullt verð fyrir útþynnta vöru.

Það er að sjálfsögðu skylt að nefna öll notuð aukefni og merkja umbúðir með réttum hætti.

Flökin fara í ískraba eftir roðflettingu

Það er alveg skýrt að ólöglegt er að:

  • Bæta vatni og aukefnum við vöruna í þeim tilgangi að svíkja neytendur
  • Selja íshúðuðar sjávarafurðir án þess að merkja nettó þyngd án íshúðar
  • Nota vatnsbindandi aukefni án þess að tilgreina þau á umbúðum
  • Merkja vöru sem búið er að bæta vatni í sem „náttúrulega“ eða „án viðbætts vatns“

Fyrir um 15 árum síðan á Matís tímanum mínum tók ég þátt í að vinna litla könnun á gæðum frosinna fiskafurða í stórmörkuðum hér á landi.

Í verkefninu voru skráðar upplýsingar sem voru á umbúðum og síðan voru gerðar mælingar á þyngd fisks og umbúða, íshúð, vatnstapi við uppþíðingu, vatnsinnihaldi, próteinum, salti, fosfötum og suðunýtingu.

Svo það sé tekið fram þá er vel íshúðaður fiskur merki um gæði, það er ekki fyrr en neytandinn er látinn borga fyrir vatnið sem íshúðin fær neikvæða merkingu. 

Myndirnar hér fyrir ofan sýna hvernig mæla má íshúð sjá nánar “Íshúð-vatn sem umbúðir”

Stutta niðurstaðan í þessari könnun var að enginn pakkning stóðst merkta þyngd, það var sem sagt alltaf verið að láta neytandann borga fyrir íshúðina þegar hún var til staðar og jafnvel umbúðirnar sjálfar.

Merkingar voru heilt yfir ekki í góðu standi. Og í einu tilviki voru sterkar vísbendingar um íblöndun fosfats án þess að þess væri getið.

Merkingar varðandi geymsluþol og næringargildi voru ekki settar upp eins og gert er ráð fyrir í reglugerðum.

Skýrsluna um könnunina sem unnin var í samvinnu við Neytendasamtökin má nálgast á heimasíðu Matís: “Gæðakönnun á frystum fiski á íslenskum markaði”

Ég þykist vita að flestir framleiðendur eru að gera nokkuð vel þegar kemur að útflutningi en því miður þá virðast margir kasta til hendinni þegar framleitt er fyrir heimamarkaðinn.

Það eru vægast sagt hægt að rekast á margar skrítnar merkingar á frystum sjávarafurðum í verslunum hér á landi.

Fljótt á litið sýnist mér lítið hafa lagast frá því Matís og Neytendasamtökin gerðu könnun árið 2011.

Það þýðir í raun að stöðugt og alla daga í áraraðir er verið að blekkja neytendur og láta þá jafnvel greiða fiskverð fyrir vatn og umbúðir.

Lausfryst karfaflök með 6-7% ´húð það var alveg skýrt á þýska markaðnum að pakkningin átti að innihalda 1kg af flökum án íshúðar

Það er til að æra óstöðugan að taka fyrir einstaka vörumerkingar en ég má til með að nefna tvö dæmi.

Fyrir nokkru rakst ég t.d. á næringarefnamerkingar á frystri ýsu þar sem því var haldið fram að ýsan hefði að geyma 15g af kolvetnum í 100g sem er nokkuð meira en finnst í kókakóla. Ef kæruleysilega er merkt hvað annað er látið reka á reiðanum.

Í einni verslun má finna erlendar frystar rækjur sem merktar eru með hugtakinu „Blandaðar“ sem engin frekari skýring er á önnur en að samkvæmt innihaldslýsingu eru notuð mörg íblöndunarefni: Rækjur (rækjur (80%), vatn, þráavarnarefni (E339), þykkingarefni (E451, E452), rotvarnarefni (inniheldur Súlfít E223)).

Pokinn inniheldur 80% rækjur,  þýðir það þá að íshúðin sé 20% eða er búið að vatnsblanda rækjurnar svona svakalega? Alla vega er próteinið sagt vera 9,7g/100g sem er mjög lítið, eðlileg tala væri nær 15 – 18g/100g og bendir þetta því til umtalsverðrar þynningar eða vatnsíblöndunar.

Finna má fleiri dæmi um útþynntan og vatnsbólgin skelfisk í verslunum, í sumum tilvikum stendur að vatni sé bætt í vöruna og í innihaldslýsingu er fosfat og fleiri vatnsbindandi efni á listanum.

Ég spyr bara er virkilega eftirspurn eftir svona vöru ?

80% risarækja er allt hitt bara vatn og smá salt? Það má alveg velta fyrir sér ýmsu þegar merkingar þessarar vöru eru skoðaðar. Er ekkert innkaupaeftirlit í verslunum hér á landi?

Það er ekki ætlun mín að taka einhverja framleiðendur fyrir. það er alltaf áhugavert að rýna innihaldslýsingar í verslunum þær segja nefnilega talsvert um vandvirkni og metnað framleiðandans.

Góðar, áreiðanlegar, skýrar, réttar og trúverðugar upplýsingar vekja traust neytenda. Traust er sú upplifun sem fær viðskiptavininn til að kaupa vöruna aftur og aftur og gerir vörumerkið þar með að verðmætustu eign fyrirtækisins.

Í gegnum tíðina hef ég orðið var við allskonar íblöndun í fiskafurðir sem ætlaðar eru á erlenda markaði. Ég hef líka heyrt af kvörtunum frá erlendum kaupendum um t.d. of hátt saltinnihald.

Svo framleiðendur eru greinilega að reyna fyrir sér með íblöndun í nafni bættrar nýtingar, jafnvel sannfærðir um að varan verði betri útþynnt.

Kunnáttan og árveknin er ekki alltaf til staðar svo það eru alveg til dæmi um alvarlegt vesen þegar vatn og saltíblöndun er annars vegar svo ávinningur nýtingaraukans er fljótur að hverfa þegar upp kemst um strákinn Tuma.

Að geta treyst vörunni er eitt það mikilvægasta í huga neytandans

Erlendir kaupendur mæla stundum prótein í sjávarfangi sem þeir kaupa og ef það passar ekki alveg við það sem telst einkennandi fyrir viðkomandi tegund þá má alveg búast við neikvæðum uppákomum,

Ég þreytist seint á að segja að traust og trúverðugleiki eru hugtök sem þurfa að fylgja í samskiptum framleiðanda og kaupanda og þessi hugtök eru ekki mæld í kílóum.