Það er mikil upplýsingaóreiða í gögnum varðandi sjávarafang og nýsköpun í íslenskum sjábarútvegi.
Á síðustu fimm árum höfum við t.d. flutt út 30.000 tonn af marningi og 7.000 tonn af hakki eða það segja tölur Hagstofunnar.
Tölur Hagstofunnar segja okkur líka að ríflega 10% marnings og hakks fara á erlenda markaði sem ferskvara.
Til að gera langa sögu stutta þá er ég þeirrar skoðunar að þessar tölur og upplýsingar séu nær bulli en sannleika.
Marningur og hakk er reyndar til samans innan við 1% af útflutningsverðmætum árið 2023 svo þetta með hvort marningur sé hakk eða hakk sé marningur skiptir svo sem ekki öllu máli.
Eða hvort þessar afurðir séu fluttar út ferskar eða frystar breytir litlu þegar stóra myndin er skoðuð.
Ég er fyrst og fremst að reyna að benda á að þessi leið sem við höfum valið að fara til að halda utan um útflutningsverðmæti og nýsköpun sjávarafurða er frekar hæpin til að höndla það sem henni er ætlað.
Burt séð frá því hvaða ákvarðanir eru teknar og hverjum þær reynast best þá eru gögn og upplýsingar grunnur rökræðunnar. Mikilvægt er að byggja upplýsingar á samræmdum og stöðluðum aðferðum þannig að nýta megi þær af þekkingu.
Ef upplýsingar eru ekki traustar þá getur reynst erfitt að taka góðar ákvarðanir.
Þessi pæling mín með marninginn og hakkið er fyrst og fremst hugsuð til að sýna fram á hversu litlar og óáreiðanlegar upplýsingar verða til í núverandi kerfi.
Þar sem ekki tekst að halda utan um jafn lítinn og einfaldan afurðaflokk eins og marning þá má að sjálfsögðu velta fyrir sér hvað með allt hitt.
Það er í raun ótrúlegt að við skulum enn treysta á að Tollurinn búi til og haldi utan um þetta kerfi sem á að upplýsa um hvernig verðmætin verða til í íslenskum sjávarútvegi. Vöruþekkingin hjá Tollinum er afskaplega takmörkuð eins og dæmin sanna.
Það eru t.d. engar skýringar að finna hjá þeim varðandi hugtakanotkun þannig að í skráningu útflutnings eru mýmörg dæmi um misskilning eins og þetta með marning og hakk, ferskt og frosið.
Útflutningur og afurðaskráning útflytjenda er að því er mér skilst alveg eftirlitslaus og enginn með það hlutverk að fylgjast með því að vara sé rétt skráð.
„Rétt eða röng skráning skiptir engu meðan skráningin truflar ekki útflutninginn“
sagði einn framleiðandi við mig hér um árið.
Ég hef eytt ómældum tíma í að skoða útflutningstölur í gegnum árin og það undrar mig mikið að sjá hvað þetta kerfi okkar þróast lítið en á samt að sýna okkur þróun og breytingar í nýtingu sjávarafla.
Við treystum alfarið á að Tollurinn búi til söguna með því að finna heimili fyrir afurðirnar í tollskrárnúmerakerfinu.
Þessi númerhönnun og vörulýsingar eru endurskoðaðar á fimm ára fresti svo það segir sig sjálft að upplýsingar um nýsköpun og vöruþróun í sjávarútvegi er ekki að skila sér inn í svona skráningarkerfi.
Í raun hefur ekki átt sér stað nein framþróun í þessum efnum á þessari öld og gott betur. Við sitjum uppi með mjög illa hannaða tollskrá sem á að vera lykillinn að upplýsingum um þróun og nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi.
Ég reyndi með verkefninu „Aukin verðmæti gagna“ að varpa ljósi á annmarka núverandi kerfis um leið og ég og mínir félagar í verkefninu lögðum til nýjar og vel færar leiðir.
Því miður gengu lykilstjórnendur og samstarfsaðilar úr skaftinu og verkefnið endaði sem ónýtt hilluvara.
Það kemur skýrt fram í eldri pósti hér á síðunni „Vitið er verði betra“ um útflutning sjávarafurða hvernig tollskráin og framsetning Hagstofunnar mun aldrei getað náð utan um breytingar og þróun verðmæta í íslenskum sjávarútvegi.
En kannski er bara best að sem minnst þekking liggi fyrir því þá geta menn bara sagt og haldið fram því sem þeim sýnist og hentar best hverju sinni.
Og eldri fyrrverandi starfsmenn í sjávarútvegi eins og ég geta bara haldið fram allskonar staðhæfingum um fyrri afrek án þess að nokkur geti dregið þann „sannleik“ í efa.
Þetta með marninginn eða hakkið, ferskt eða frosið er fyrirtaks dæmi um þetta vonlitla kerfi.
Til dæmis þá má byrja á að spyrja hvort einhver sé yfirhöfuð að framleiða fiskhakk í stórum stíl til útflutnings? Eða hvort einhver sé að flytja út ferskan marning eða ferskt hakk?
Ég ætla að leyfa mér að efast um að flutt séu út þúsundir tonna af fiskhakki í fyrsta lagi og í öðru lagi dreg ég það mjög í efa að nokkur sé í alvörunni að flytja út ferskan marning eða hakk.
Ef ég hef rangt fyrir mér þá væri gaman að heyra frá þeim sem veit betur.
Það er svo sem alveg rétt hjá Tollinum að marningur og hakk er sitthvað þó þessar afurðir líti nánast eins út fullunnar og eiga því skilið ólík tollskrárnúmer.
Marningurinn verður til með því að þrýsta fiskholdinu að gatasigti þannig að mjúkt fiskholdið fer í gegnum götin en bein og roð komast ekki þá leið. Þannig verður til beinlaus marningur sem hefur svipaða áferð og fiskhakk.
Í langflestum vinnslum er til marningsvél, sem notuð er til að framleiða marning úr afskurði sem verður til við snyrtingu flaka.
Hakk aftur á móti verður að vinna úr beinlausum flökum eða flakabitum, því hakkavél skilur ekki bein og roð frá fiskholdinu heldur hakkar allt hráefnið og til verður hakk með beinum og roðleifum ef slíkt var í hráefninu.
Ég minnist þess ekki að hafa séð hakkavél í fiskvinnslum en það má vel vera að slík verkfæri finnist þar þó það hafi farið fram hjá mér. En í vinnsluleiðbeiningabókunum mínum er engin sjávarafurð sem heitir hakk.
Ég tók eftir því við breytingar tollskrárinnar 2007 að hakk var komið á lista yfir sjávarafurðir. Hvers vegna hef ég ekki hugmynd um.
Í núgildandi tollskrá er að finna 38 tollskrárnúmer fyrir marning og hakk, ferskt og fryst.
Svona bara til að segja það í lokin á þessum pósti þá er alveg heill hellingur af undarlegum vörulýsingum sem standast ekki skoðun í þessum lykilgagnagrunni sem á að gefa okkur innsýn inn í úrval afurða og þróunar í íslenskum sjávarútvegi.