Póstur nr.7

Nú á tímum eru neytendur mikið að velta fyrir sér allskonar matarstússi, hvað á að borða, hvað á að borða mikið af einhverju, hvað á að borða lítið af því sama, hvað á að forðast og hvenær er best að borða? Sem sagt endalausar útfærslur af allskonar stundum misgáfulegu matarveseni.

En það er svo sem engin ástæða til að gera lítið úr þessu öllu því þekking á mat og neyslu getur hæglega skipt heilsu margra miklu máli. Upplýsingar um innihaldsefni matvæla eru því mikil verðmæti sem verða að byggjast á þekkingu og rannsóknum.

Til þess að geta tæklað þessar spurningar um hollustu og óhollustu þá er nauðsynlegt að vita hvað er í matnum af æskilegum sem og óæskilegum efnum. Matís leikur lykilhlutverk á þessum vettvangi og í því samhengi er vert að minnast á næringarefnagrunninn sem nálgast má á heimasíðu Matís. Þar er hægt að finna upplýsingar um öll mikilvægu næringarefnin sem finna má m.a. í íslensku sjávarfangi. Ég á örugglega eftir að skoða og fjalla um næringarefnagrunninn síðar.

En tilefni þessa pósts er skýrsla sem Matís gaf út í ársbyrjun um óæskilegu efnin: „Niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi úr auðlindinni 2022“. Í mjög stuttu máli þá er allt í góðu standi og allar mælingar benda til þess að hægt sé að halda því fram að fiskur frá Íslandi sé vel innan allra viðmiðunarmarka Evrópusambandsins hvað þessi tilteknu óæskilegu efni varðar.

Í gegnum tíðina hefur gengið á ýmsu þegar fjármagna þarf svona mælingar og rannsóknir sem er mjög undarleg staða í mínum huga. Þessi þekking er gríðarlega mikilvæg til að efla sterka stöðu íslensks sjávarfangs, staðfestir m.a. öryggi og heilnæmi afurðanna og tryggir um leið hagsmuni neytenda eitthvað sem ætti að skipta alla matvælaframleiðendur miklu máli.

Dæmi um framsetningu gagna í skýrslu Matís

Ég hef stundum sagt að kassi af fiski væri ekki bara fiskur heldur innihéldi kassinn að auki mikla þekkingu og reynslu sem studd væri af rannsóknum, vöruþróun og menntun. Þessi þekking og þessi niðurstaða sem lesa má um í skýrslu Matís er hluti þeirra verðmæta sem pakkað er í fiskkassann og opnar m.a. dyr að verðmætustu mörkuðum okkar.

Það hefur lengi vafist fyrir mönnum að tengja svona þekkingu við verðmæti sjávarfangs og sumum finnst það kannski fáránlegt að halda því fram að verðmætin væru töluvert minni ef nokkur ef þessi þekking og kunnátta væri ekki til staðar. Alla vega má halda því fram að ef við hefðum ekki þessa yfirsýn og þekkingu við höndina væri hætta á að sumir kaupendur og markaðir gætu ekki tekið við sjávarfangi frá Íslandi.

Mælingar og rannsóknir af þessu tagi auka tvímælalaust verðmæti íslensks sjávarfangs, þó þau séu ekki færð til bókar.

Ég kynntist mikilvægi þessarar upplýsinga þegar ég starfaði skömmu fyrir aldamótin hjá Icelandic Freezing Plants Handels GmbH í Hamborg, dótturfélagi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Í störfum mínum þar var ég í töluverðum samskiptum við fyrirtæki sem eiga stærstu vörumerkin í frystum matvælum á þýska smásölumarkaðnum.

Það var afskaplega áhugavert að kynnast starfsemi þeirra og hversu mikla áherslu þessi fyrirtæki lögðu á að vernda vörumerkin sín gegn gagnrýni og áföllum. Ekkert var þeim óviðkomandi varðandi vörurnar sem þau voru að kaupa af okkur þau vildu hafa skýr svör um allskonar m.a. stefnu stjórnvalda í verndun fiskistofna, hvalveiðar, umhverfismál o.m.fl. Meira að segja þurfti að gera grein fyrir blekinu sem notað var til að prenta á umbúðirnar. Það virkaði ekki að flagga frasanum að Ísland væri ávallt best í heimi, tölur og staðreyndir voru málið.

Karfaflök í 1kg pakkningum fyrir þýska markaðinn

Á þessum árum mínum í Hamborg fékk ég fyrirspurn varðandi óæskileg efni sem hugsanlega mætti finna í sjávarfangi. Þá kom sér nú vel að sérfræðingarnir á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins höfðu verið að mæla allnokkur þessara efna og þeir gátu gefið mér stutta samantekt um stöðu mála sem dugði þessum kaupanda að sinni, svo viðskiptin gátu haldið áfram án vandkvæða.

Ég er ekki alveg viss um að ráðamenn og ýmsir í bransanum geri sér fyllilega grein fyrir mikilvægi rannsókna og mælinga af þessum toga sem sérfræðingar Matís hafa sinnt undanfarin ár.

Ég hef nefnilega stundum orðið var við það að sumum þyki þessi opinbera starfsemi að mestu óþörf og margt af því sem gert er hjá Matís gæti verið í höndum „einhverra“ annarra þ.e.a.s. ef það væri yfirhöfuð einhver eftirspurn eftir svona rannsóknum og þekkingu.

Margir átta sig kannski ekki á því að fiskur er ekki bara einhver matur sem selst fyrirhafnarlítið vegna þess að uppruninn er Ísland.

Það er nefnilega svo margt sem hefur áhrif á nútíma neytendur. Umhverfið, hreinleikinn og sjálfbærnin skipta marga og sífellt fleiri og fleiri miklu máli og þá er nú eins gott að á Íslandi séu til góðar og áreiðanlegar upplýsingar um stöðu mála. Öðru vísi komumst við ekki inn fyrir þröskuld þeirra fyrirtækja sem eiga verðmætustu vörumerkin og borga oftast bestu verðin.

Fyrir áratug eða svo tók ég þátt í því að setja saman bækling hjá Matís sem við kölluðum „Valuable facts about Icelandic seafood“. Þar tókum við saman á skipulegan máta helstu mæligildi óæskilegra efna sem Matís hafði mælt og birt í skýrslum árin þar á undan. Í mjög stuttu máli þá var allt mælt sjávarfang undir viðmiðunarmörkum Evrópusambandsins eins og reyndin er í dag.

Hugmyndin með bæklingnum var sú að útflytjendur sjávarafurða gætu haft staðfestar rannsóknaniðurstöður við höndina sem var nokkuð sem ég saknaði þegar ég þurfti að standa skil á svona upplýsingum gagnvart mikilvægum viðskiptavini.

Bæklingurinn naut mikilla vinsælda og komst í dreifingu víða sem gott stuðningsefni fyrir útflytjendur íslenskra sjávarafurða.

Kannski er kominn tími á nýjan bækling?

Write A Comment