Fullvinnsla sjávarafurða er mikið notað hugtak. En hvað er í raun átt við þegar talað er um fullvinnslu annars vegar og óunnið hráefni hins vegar.

Nýlega gerði Gallup könnun þar sem kom fram að 90% þjóðarinnar telja það mikilvægt að fiskur sé fullunninn hér á landi. Ætli þjóðin geri sér grein fyrir hvað fullvinnsla er.

Svo hafa þingmenn og fleiri jafnvel verið að velta því fyrir sér að setja á einhvers konar innlenda vinnsluskyldu hráefnis. Slíkar hugmyndir hljóta að leiða til þess að hugtakið fullvinnsla fái ítarlega skilgreiningu.

Við nánari skoðun þá er yfirleitt er bara verið að tala um slægðan ísaðan þorsk eins og það sé eina hráefnið sem þarf að fullvinna.

Ísaður slægður þorskur er ekki eina óunna hráefnið sem flutt er úr landi

Vissulega er þorskurinn mikilvægasta og verðmætasta tegundin, en það er nefnilega ekki bara einhver þúsund tonn af ferskum slægðum þorski sem er óunnið hráefni. Við flytjum út miklu meira af t.d. heilum slægðum eldislaxi sem er þá væntanlega líka óunnið hráefni.

Það fara líka út þúsundir tonna af öðrum ísuðum óunnum tegundum svo sem ýsu, karfa, steinbít og skarkola svo þær helstu séu nefndar.

Ef skoðaðar eru sambærilegar frystar vörur þá eru tölurnar enn hærri. Síld, makríll, grálúða, karfi, gulllax og fleiri tegundir sem eru að stórum hluta frystar um borð í frystiskipum fara lítið unnar til erlendra vinnslufyrirtækja.

En frystiskipin eru engu að síður gjarnan kölluð  fullvinnsluskip án þess að nánar sé farið ofan í saumana á því hvað átt er við.

Það voru flutt út 28 þús.tonn af óslægðum makríl með haus fyrir um 7,5 milljarða kr. árið 2024

Og svo til að lyfta sumum veiðum á enn hærri stall þá er talað um veiðar til manneldis.

Vert er að hafa í huga að tveir kaflar í tollskránni 0302 og 0303 geyma um 35% af magni útfluttra afurða og um 30% af verðmætunum eða um 240.000 tonn sem gera um 120 milljarða í útflutningsverðmætum.

Afurðirnar sem finnast fyrst og fremst í köflum 0302 og 0303 er það sem flestir kalla óunninn heill fiskur eða lítt unnin fiskur, ferskur eða frystur.

Í mínum huga eru veiðar, vinnsla og markaðsmál í sjávarútvegi töluvert flóknari en svo að einhver örfá hugtök segi alla söguna.

En hvað skal miða við til að afurð geti unnið sér inn heitið fullunnin sjávarafurð? Er verið að tala um einhvers konar nýtingarviðmið, verðmæti eða vöru sem er því sem næst tilbúin á disk neytenda.

Það er alltaf framleitt umtalsvert magn af ýmsum tegundum blokka sem fara í gegnum erlendar verksmiðjur áður en fiskurinn kemst á disk neytenda.

Raunin hvað varðar íslenskt sjávarfang er að langflestar íslenskar afurðir eru hannaðar fyrir erlendar verksmiðjur, matvælavinnslur, stóreldhús og veitingahús.

Mjög lágt hlutfall íslenskra sjávarafurða endar í hillum smásöluverslana og þá yfirleitt undir vörumerkjum erlendra dreifingaraðila eða verslana.

Íslensk vörumerki á neytendamarkaði eru ekki til þrátt fyrir nokkra afmarkaðar tilraunir í gegnum árin. Svona heilt yfir þá er íslensk fjárfesting í markaðsþekkingu og vöruþróun fyrir neytendamarkaðinn frekar lítil ef nokkur.

Tollaflokkun

Tollskráin flokkar afurðir eftir því hversu mikið þær eru unnar, enda er þetta tollskrárkerfi að miklu leyti sniðið að því að leggja mat á innflutning hráefnis til vinnslu annars vegar og fullunnina afurða hins vegar.

Þar sem útflutningur er ekki grunnur að gjaldstofni eins og innflutningur, þá er mun minna eftirlit með því hvort útflutningsvörur séu rétt skráðar í tollflokka. Það er þá á hendi innflutningslandsins að kanna réttmæti lýsingar og númers.

Langmest af okkar sjávarafurðum falla undir kafla 3 í tollskránni sem ber heitið: „Fiskur og krabbadýr, lindýr og aðrir vatna- og sjávarhryggleysingjar“.

Kafla þrjú er skipt í níu undirkafla þar sem kaflarnir 0302, 0303, 0304 og 0305 geyma um 67% af magninu og 80% af verðmætunum.

Hér má sjá hvernig útflutningur sjávarafurða raðast í mismunandi tollakafla

Ég nýtti mér upplýsingar hjá Hagstofu Íslands sem kallast „Útflutningur eftir tollskrárnúmerum, kafli 1-40 og kafli 41-99“.  Ég tel mig hafa fundið allan útflutning sem tengja má við sjávarafurðir alls um 800 tollskrárnúmer, en þau eru alls ekki öll í notkun. Enda er númerkerfið hannað bæði fyrir inn og útflutning.

Miðað við þessa yfirferð mína þá fluttum við út um 675 þúsund tonn af afurðum fyrir verðmæti uppá ríflega 400 milljarða króna árið 2024.

0302 – Fiskur, nýr eða kældur, þó ekki fiskflök og annað fiskkjöt í nr. 0304

Hér má gera ráð fyrir að finna, heilan fisk, slægðan og óslægðan, hausaðan eða með haus, en hér má einnig finna lifur og hrogn, en í öllum tilvikum er um kælivöru eða ferskvöru að ræða sem sagt frekar lítið unnar afurðir.

Segja má að þetta sé kaflinn sem hafi að geyma hráefni sem fer að langmestu leyti á markaði eða til vinnslu erlendis.

Kafli 0302 hefur að geyma ríflega 100 þúsund tonn að verðmætum um 70 milljarða króna. Í þessum kafla má m.a. finna ferska þorskinn slægðan með haus sem fluttur er út á erlenda markaði.

Kafli 0302 er um 15% af heildarmagni útfluttra sjávarafurða 2024 og um 17% af verðmætunum svo þessi hráefniskafli vegur nokkuð þungt þegar heildarmyndin er skoðuð.

Ferskur heill fiskur svo sem bleikja, lax og þorskur tilheyra kafla 0302

Í þessum kafla er óunni eldislaxinn mest áberandi en hann stendur á bak við tæp 40% af magninu og 60% af verðmætunum í þessum kafla.

Heill þorskur, ýsa og karfi eru til samans um 35% af magninu og ríflega 20% af verðmætunum í þessum hráefniskafla 0302.

Það má vafalítið finna nokkur tækifæri til frekari verðmætasköpunar og vöruþróunar meðal þessara lítt unnu afurða. T.d. leka töluverð verðmæti úr landi sem gætu nýst til framleiðslu þekktra aukaafurða með öllu þessu óunna hráefni.

0303 – Fiskur, frystur, þó ekki fiskflök og annað fiskkjöt í nr. 0304  

Hér má gera ráð fyrir að finna samskonar afurðir og í 0302 það er heilan fisk, slægðan og óslægðan, hausaðan eða með haus og einnig lifur og hrogn, en í öllum tilvikum er um frystivöru að ræða.

Tollskrárnúmerin sem byrja á 0303 standa á bak við um 138 þúsund tonn og verðmætin eru tæpir 50 milljarðar. Það eru um 20% af magni útfluttra afurða en aðeins um 12% af verðmætunum.

Hausskorinn sjófrystur karfi er m.a. í kafla 0303

Kafli 0303 hefur að geyma mikið af allskonar heilfrystum tegundum svo sem grálúðu, síld, makríl, loðnu, karfa og gulllaxi. Loðnuhrognin eru einnig í þessum kafla.

Kafli 0303 er að skila lægsta meðalverðinu á hvert kíló útflutt, en kafli 0302 er með helmingi hærra meðalverð og kafli 0304 nærri þrisvar sinnum hærra meðalverð.

0304 – Fiskflök og annað fiskkjöt (einnig hakkað), nýtt, kælt eða fryst

Hér má finna þessar klassísku frystihúsaafurðir bæði ferskar og frystar. Í þessum kafla er 25% af magni útfluttra afurða og 40% af verðmætunum.

Þetta er sá flokkur sem hefur að geyma langflestar afurðirnar, enda er um að ræða bæði frystar og kældar/ferskar afurðir, flök sem eru unnin með ýmsum hætti, roðlaus, með roði, beinlaus, með beinum, bitar, einnig er reynt að gera greinarmun á lausfrystingu og plötufrystingu og einnig er gerður að einhverju leyti greinarmunur á landfrystingu og sjófrystingu.

Í þessum kafla eru ríflega 200 tollskrárnúmer þannig að vöruflóran er umtalsverð. Mestu verðmætin liggja í allskonar bolfiskafurðum svo sem ferskum og frystum flökum og flakabitum.

0305 -Fiskur, þurrkaður, saltaður eða í saltlegi; reyktur fiskur, einnig soðinn á undan eða jafnhliða reykingu

Þessi kafli geymir klassískar saltaðar og þurrkaðar afurðir.

Vegna misskilnings þá fengu menn þá flugi í höfuðið að léttsaltaði fiskurinn ætti heima í þessum kafla. Sumir framleiðendur skrá þessar afurðir í kafla 0304 þar sem þær eiga heima meðan aðrir skrá þær í 0305 svo það veit enginn hvað flutt er mikið út af léttsöltuðum afurðum.

Flattur saltfiskur er í kafla 0305, ©Lárus Karl Ingason ljósmyndari

Það eru yfir 100 númer í þessum kafla og þar vega þyngst afurðir eins og blautverkaður þorskur, söltuð þorskflök og þurrkaðir hausar.

45 þúsund tonn eru í þessum flokki afurða og verðmætin eru um 40 milljarðar.

Kaflar 1504, 1602, 1605 og 2301

Þegar köflum 1504, 1604, 1605 og 2301 er bætt við það sem áður var upptalið í kafla 3 þá eru 98% verðmætanna komin.

Lýsið er í kafla 1504 og skilar um 8% af heildarverðmætunum.

Kafli 1604 sem er að mínu mati kaflinn fyrir fullunnar afurðir þar má m.a. finna niðursoðnar eða niðurlagðar afurðir, hlutfall verðmætanna er aðeins 1,4%.

Flutt voru út 4.600 tonn af niðursoðinni fisklifur árið 2024 fyrir um 4,5 milljarða kr.

Kafli 1605 hefur fyrst og fremst að geyma pillaða rækju og er hlutfall þeirra verðmæta um 2%.

Kafli 2301 samanstendur fyrst og fremst af fiskimjölstegundum sem eru um 7% af heildarverðmætum íslenskra sjávarafurða.

Vinnsla og sala innanlands

Að lokum er rétt að nefna innlenda framleiðslu sem enginn veit hvað er mikil.

Hvað mikinn fisk selja fiskbúðir, matvöruverslanir, veitingahús og hvað fer mikið í hina sívinsælu harðfiskframleiðslu?

Það er nánast útilokað að finna einhverjar tölur sem hægt er að stóla á þegar kemur að innanlandsneyslu og framleiðslu afurða fyrir innanlandsmarkað.