Þorskur er lang verðmætasta fisktegundin eins og flestir vita. Ótrúlegt en satt þá er næst verðmætasta fisktegundin óþekkt eða eins og víða stendur í tollskránni „fiskur ótalinn annars staðar“ og getur þar af leiðandi verið hvað sem er.
Sem sagt við vitum ekki hvaða tegundir standa að baki um 40 milljarða útflutningi og þannig hefur það verið í áratugi og engar breytingar á því í væntum svo ég viti.
Við munum aldrei fá að vita hverjar þessar tegundir eru sem skila okkur þessum miklu verðmætum.
Upplýsingar Hagstofunnar
Hægt er að finna allskonar upplýsingar um íslenskar sjávarafurðir á vef Hagstofunnar margar nokkuð skýrar og auðskiljanlegar. Meðan aðrar eru töluvert skrýtnar og ekki alveg ljóst hverjum þær gagnast eða hvaða tilgangi þær þjóna.
Í mínum huga er fátt mikilvægara en að hafa áreiðanleg gögn við höndina þegar taka skal ákvarðanir.
Burt séð frá því hvaða ákvarðanir eru teknar og hverjum þær reynast best þá eru gögn og upplýsingar grunnur rökræðunnar. Upplýsingar þurfa að byggja á samræmdum og stöðluðum aðferðum.
Í sjávarútvegi sem öðrum greinum er mikið magn upplýsinga að finna sem leggja m.a. grunninn að mörgum mikilvægum og afdrifaríkum ákvörðunum sem hafa áhrif á alþjóðasamskipti, samfélagið, fyrirtæki og einstaklinga.
Þegar vara er flutt milli landa þá þarf að leita í tollskrá að vörulýsingu sem passar við vöruna sem um ræðir. Eins og ég nefndi í póstinum mínum sem ég kallaði „Upplýsingaóreiða“ þá eru víða mjög einkennilegar og illskiljanlegar vörulýsingar í tollskránni.
Tollskráin er endurskoðuð á fimm ára fresti svo nýjar vörur og nýsköpun kemst ekki til skila fyrr en eftir dúk og disk. Og margar afurðir sjást aldrei í útflutningstölum og eru faldar m.a. innan um „annar fiskur ótalinn annars staðar“.
Meðan ég starfaði hjá Matís þá tók ég oft saman upplýsingar sem unnar voru upp úr tollskránni sem er okkar eini grunnur til upplýsingaöflunar varðandi verðmæti sjávarafurða.
Verðmæti gagna
Ég fór reyndar ítarlega yfir þessa stöðu í skýrslunni „Aukin verðmæti gagna“ sem finna má á heimasíðu Matís.
Mér hefur alltaf fundist athyglisvert hvað margar vörulýsingarnar eru án tengingar við fisktegund eins og t.d. „Sjófryst, blokkfryst flök af fiski ótöldum annars staðar“ eða „Annað fiskkyns, saltað, þurrkað eða reykt“. Þessi tvö dæmi eru með verðmæti upp á ríflega einn milljarð.
Sambærilegar vörulýsingar eru út um allt og tollskrárnúmer án tegundar voru yfir 90 talsins og útflytjendur nýta þessi númer óspart þegar vara er skráð á útflutningspappíra.
Verðmætustu tegundirnar
Ég flokkaði öll númerinn í tollskránni og tengjast sjávarfangi eftir tegundum og lagði svo saman þau númer sem ekki voru tengd ákveðinni fisktegund. Þessi aðferð til að greina verðmætustu fisktegundirnar gaf mér eftirfarandi niðurstöðu, en þessar ellefu tegundir skila um 90% af verðmætum íslenskra sjávarafurða:
- Í fyrsta sæti er að sjálfsögðu þorskurinn með tæp 35% af heildarverðmætunum.
- Í öðru sæti er svo „óþekkti fiskurinn“ með um 10%.
- Eldislaxinn er kominn í þriðja sætið með tæp 10% af heildinni.
- Loðna og síldin eru nánast á pari í fjórða og fimmta sæti með um 8% hvor tegund.
- Ýsan er í sjötta sæti með um 7%
- Makríllinn í áttunda með tæp 4%
- Ufsinn í níunda sömuleiðis með tæp 4%
- Karfinn í tíunda sæti með rúm 3%
- Grálúðan nær ellefta sætinu með 3%
Þessar ellefu tegundir dekka sem sagt um 90% af heildaverðmætunum árið 2023.
Þau 8% sem eftir eru tengjast svo alls 45 mismunandi tegundum.
Önnur verðmætast tegundin í útflutningi er bara eitthvað svona allskonar. Og það er dapurlegt að bransinn skuli bara sætta sig við svona vinnubrögð.
Í bókhaldi framleiðenda og útflytjenda liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um tegundir, það er jú enginn kaupandi að kaupa bara „fisk“.
Svo það er mikil synd að þessar ítarlegu upplýsingar skulu ekki rata í gagnagrunn Hagstofunnar og gefa okkur kost á að greina betur hvernig verðmætin verð til.
Hvaða tegundir skipta mestu eða minna máli þegar stórar ákvarðanir eru teknar um auðlindir þjóðarinnar.