Nú þegar hrognkelsaveiðar eru að hefjast þetta vorið finnst mér alveg tilvalið að vekja athygli á skýrslunni „Lumpfish caviar – from vessel to consumer“ sem Jón Jóhannesson matvælafræðingur ritaði árið 2006 meðan hann dvaldi sem gestavísindamaður (visiting scientist) hjá FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, í Róm. Skýrsluna má nálgast á heimasíðu FAO með því að smella á heiti hennar hér fyrir ofan.

Skýrslan lýsir mjög vel veiðum á grásleppu hér við land og víðar eins og hún var stunduð í byrjun þessarar aldar. Jón Jóhannesson hafði mikla reynslu af vinnslu grásleppuhrognakavíars í störfum sínum á Akureyri. Í skýrslunni er farið skipulega í gegnum allt ferlið frá veiðum til neytenda.

Eini kavíarinn sem má heita caviar án tengingar við fisktegund er unnin úr hrognum styrju. Hann er hinn eini sanni caviar allur annar kavíar er „eftirlíking“ og verður þess vegna að bera nafn þeirra fisktegundar sem hann er unninn úr. Grásleppuhrognakavíar gengur undir heitinu „lumpfish caviar“ – loðnuhrognakavíar heitir „capelin caviar“ og svo framvegis.

En um allt þetta og margt annað fróðlegt og upplýsandi má lesa í skýrslu Jóns Jóhannessonar.

Grímur Valdimarsson sem gegndi starfi Director of the Fishery Industry Division hjá FAO benti mér á þessa skýrslu þegar við vorum að spjalla um bloggsíðuna mína fiskurogkaffi.is. Grímur lagði til að ég kæmi skýrslu Jóns á framfæri á nýju bloggsíðunni minni, sem mér fannst alveg upplagt enda er skýrslan mjög góð og fræðandi samantekt um grásleppuna og hrognin.

Í framhaldi af þessu má geta þess að á heimasíðu FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, er að finna gríðarlega mikið af allskonar fróðleik sem tengist sjávarfangi. Ég hvet alla til að gefa sér tíma í að skoða heimasíðu FAO (www.fao.org).

Þar má meðal annars finna upplýsingar um alþjóðlega matarstaðla (Codex Alimentarius – international food standards).

Svo er alltaf áhugavert að skoða upplýsingaefnið frá Torry research station. Þó efnið sé komið til ára sinna þá er þar margt að finna sem enn á fullt erindi til þeirra sem eru að leita fróðlegu efni um vinnslu og verkun sjávarfangs.

Write A Comment