Póstur nr.1

Páll Gunnar Pálsson matvælafræðingur býður ykkur velkomin á bloggsíðuna fiskurogkaffi.is.

Í störfum mínum hjá Matís setti ég saman mikið af fræðandi efni sem tengist vinnslu og verkun sjávarafurða og nú þegar ég er orðin launþegi hjá sjálfum mér, datt mér í hug hvort það væri nokkuð svo vitlaust að halda áfram að vinna með þetta efni á nýjan máta.

Ég hef nefnilega lengi gengið með það í maganum að setja á laggirnar heimasíðu þar sem fjallað er um allt mögulegt sem tengist sjávarafurðum.

Og nú er síðan komin í loftið og ég læt þar með á það reyna hvort eitthvert vit sé í þessu brölti. Matís hefur stutt mig í að klára tæknimálin varðandi síðuna en að öllu leyti verður efnið úr mínum penna komið nema annað sé tekið fram.

Fiskur og kaffi hefur skipað stóran sess í mínum daglegu störfum og fannst mér alveg tilvalið að spyrða þessi hollu matvæli saman í heiti þessarar bloggsíðu minnar.

Á tímum prentmiðla vann ég ásamt nokkrum í Matvæla- og næringarfræðifélagi Íslands (MNÍ) að útgáfu handbókar fyrir matvælaframleiðendur. Hugmyndin var að draga saman hagnýtar upplýsingar á einn stað fyrir félagsmenn og matvælaframleiðendur, þetta var fyrsta tilraun mín í gerð fræðsluefnis

Þegar fjallað er um auðlindina okkar þá kaffærist umræðan yfirleitt í skoðunum á fiskveiðum og kvóta og öllum þeim réttlátu og óréttlátu útfærslum sem þar eru við lýði.

Aftur á móti ætla ég eingöngu að fjalla um gæði, vinnslu, verkun, vöruþróun, rannsóknir, aukaafurðir, aðalafurðir, markaðsmál, upplýsingar, gögn, vinnslutækni, staðla, reglugerðir og margt margt fleira sem tengist sjávarafurðum.

Það er yfirleitt „betra að vita en giska“ og því reyni ég sem oftast að afla mér þekkingar á viðfangsefninu áður en ég ræðst í verkið. Mörgum finnst þetta örugglega þunglamaleg og leiðinleg aðferð í „þetta reddast umhverfi“.

Á nýju heimasíðunni minni fiskurogkaffi.is mun ég að miklu leyti styðjast við fræðsluefnið sem ég hef tekið saman og er að finna á heimasíðu Matís:

Auk þess hef ég tekið saman og ritað allskonar annað efni sem ég mun vafalaust nýta þegar fram í sækir.

Hjá Matís er unnið að margs konar verkefnum og mun ég vafalítið nýta mér fyrri tengingar og fjalla um sum þeirra, rýna skýrslur, samtöl og skrif fyrrum samstarfsfélaga.

Þá stefni ég líka á að tengja þennan fróðleik við mín fyrri störf og rifja kannski upp eitthvað af því sem ég hef fengist við um ævina. Vonandi breytist þetta ekki í eitthvert raup sem getur og hefur hrjáð ýmsa menn á besta aldri.

Undir flipanum „Um síðuna“ er að finna stutta samantekt um starfsferil minn og hvernig hafa má samband. Samskipti og spjall er nokkuð sem gefur lífinu lit og ef einhver gefur sér tíma til að láta í ljós skoðanir á efninu eða er tilbúin(n) að leggja mér lið við að koma áhugaverðu efni á framfæri þá væri það mikil hvatning.

Ég veit svo sem ekki alveg hvað ég er að koma mér í með þessu  heimasíðubrölti en markmiðið er að endurbirta fræðsluefnið mitt með nýjum hætti og ýmislegt fleira tengt rannsóknum og nýsköpun. Vonandi tekst mér að ná einhverri athygli og gera í leiðinni smá gagn við að miðla þekkingu til áhugasamra.

Það er nefnilega betra að vita en giska þó flest allt reddist nú að lokum með einum eða öðrum hætti.

Skrifaðu ummæli