Ég hef haldið á flugustöng við vötn og ár mörg undanfarin sumur, mér hefur þó ávallt fundist veiðifélagarnir öflugri veiðimenn en ég enda mjög góðir í veiðisögum. Ég veiði svona oftast nær alveg ágætlega en sumum finnst ég kannski helst til of rólegur veiðimaður.
Að vera og njóta útiverunnar, drekka kaffi og borða súkkulaði á bakkanum tekur nefnilega alveg sinn tíma frá veiðinni.
Stangveiði er einstök útivera, að vera við vötn og ár að tæla fisk á flugu er alveg meiriháttar. Maður lætur ekki veður, mý eða þreytu trufla þá upplifun.
Mest hef ég veitt af urriða og bleikju í gegnum tíðina þó einstaka lax hafi slysast á land.
Meðferð afla er ekki síður mikilvæg þegar silungur er annars vegar og gilda alveg sömu lögmál um varðveislu gæða eins og um annan fisk.
Blóðga, slægja, þvo og kæla.
Það er auðvelt að skemma fisk á mjög stuttum tíma og á það sérstaklega við þegar lofthiti er farinn að nálgast annan tuginn sem gerist alveg endrum og eins.
Að láta fiskinn liggja óblóðgaðan og óslægðan á bakkanum í sólbaði og vindþurrki í lengri tíma er pottþétt aðferð til að eyðileggja gott hráefni.
Vert er að hafa það í huga að það er aldrei hægt að vinna töpuð gæði til baka.
Bleikja og urriði eru yfirleitt í miklu æti á veiðitímabilinu sem gerir það m.a. að verkum að hráefnið er viðkvæmt. Meltingarensím og örverur eru meðal annars í miklu magni í fiskinum og skemmdarferlið hefst um leið og fiskurinn er drepinn.
Hátt hitastig flýtir auk þess fyrir dauðastirðnun og verður hún mjög kröftug í hitanum sem gerir það að verkum að holdið verður laust í sér og ekki bætir úr ef fiskurinn er síðan beygður og sveigður meðan dauðastirðnunin gengur yfir.
Við félagarnir höfum það yfirleitt þannig að þegar fiskurinn hefur látið glepjast og er háfaður á land að blóðga fiskinn strax og geyma hann síðan á skuggsælum stað í netpoka í vatninu þar til komið er heim í hús.
Þá slægjum við fiskana og þrífum þá vel og vandlega. Að lokum er þeim pakkað í plast og svo kafísaðir í einangraða kassa.
Þannig geymast fiskarnir í nokkra daga vel kældir og fara þeir því hægt og rólega í gegnum dauðastirðnun og kælingin hægir einnig á öllu skemmdarferlinu.
Þegar í bæinn er komið fara fiskarnir t.d. í frysti til að snæða síðar eða beint í Reykofninn í graf eða reyk, þaðan sem þeir koma í passlegum bitum í lofttæmdum umbúðum. Bitana má síðan frysta og njóta síðar með fjölskyldu og vinum í bland við hæfilegan skammt af veiðisögum.
Hér fylgja svo með nokkrar myndir úr veiðiferðum síðustu ára, sumar með smá dassi af monti. Myndirnar eru m.a. frá Arnarvatnsheiði, Laxá í Mývatnssveit, Svartá í Bárðardal, Vatnsdalsá (silungasvæði) o.fl. stöðum.