Sjávarfang á oft langa ferð fyrir höndum áður en þessi hollustufæða kemst á disk neytenda. Virðiskeðjan eins og hún er stundum kölluð getur verið löng og flókin. Eins og við má búast er misjafn sauður í mörgu fé og tækifæri til svika eru mörg á leiðinni.
Á síðustu árum hafa verið unnar margar rannsóknir varðand tegundasvindl, merkingar og upplýsingar til neytenda. Allar rannsóknirnar sýna fram á töluvert svindl með tegundir, vigtun, merkingar og staðhæfingar ýmis konar.
Það er hrikalega alvarlegt fyrir þá sem byggja framtíð sína á fiski ef sjávarafurðir fá á sig slíkt óorð að ekki sé hægt að treysta því að neytandinn fái það sem hann biður um og borgar fyrir.
Neytendur eru reyndar í mjög veikri stöðu til að sannreyna það sem sagt er um sjávarfangið sem á boðstólum er. Upprunaleg útlitseinkenni tegundanna eru horfin þegar búið er að flaka og roðfletta. Og svo er almenn þekking á fisktegundum og sjávarfangi mjög takamörkuð.

Það er hlutverk þeirra sem stunda viðskipti með sjávarfang að byggja upp þekkingu, traust og trúverðugleika.
Miðað við mína áralöngu reynslu á neytendavörumarkaði þá leggja eigendur margra vörumerkja gríðarlega áherslu á að allar fullyrðingar um þeirra vöru standist skoðun.
Mikil vinna er lögð í eftirlit og skoðanir til að lágmarka líkur á neikvæðum áföllum sem gætu skaðað ímynd vörumerkisins.
Með sama hætti verðum við að vernda vörumerkið okkar allra „íslenskt sjávarfang“.
Það er nefnilega ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Það þýðir ekkert að berja sér á brjóst og endurtaka í sífellu að íslenskur fiskur sé sá besti í heimi. Við verðum að vinna fyrir slíkum fullyrðingum.
Rannsóknir síðustu ára benda til þess að svindl með sjávarafurðir sé umtalsvert líka á Íslandi – já það er líka svindlað með fisk í verslunum og veitingahúsum hér á landi.
Einhvers konar rekjanleiki og vottanir gætu hugsanlega komið að notum til að koma í veg fyrir svindl. En einhvern veginn eru svindlararnir alltaf á annarri blaðsíðu en eftirlitið og komast að því er virðist auðveldlega upp með svona svikastarfsemi.
Tegundasvindl er alls ekki eina leiðin til að svíkja neytendur. Vigtun, íblöndun vatns og efna er vel þekkt leið til að svindla á neytendum.

En að þessu sinni ætla ég að halda mig við tegundasvindlið. En ég hef einmitt fengið að reyna svona svindl á eigin skinni þar sem ég fékk að borga fyrir skötusel þegar ég fékk hlýra á diskinn.
Ég ásamt vinnufélaga fengum að reyna svona tegundasvik þegar við vorum að heimsækja fyrirtæki á landsbyggðinni.
Heimamaður sem var með okkur í för lagði til að við færum á tiltekinn veitingastað í hádeginu því þar væri ávallt æðislega góður fiskur á boðstólum.
Á matseðlinum þann daginn var m.a. skötuselur sem við pöntuðum. Fiskurinn sem við fengum var greinilega ekkert sérlega ferskur og ekkert mjög skötuselslegur heldur.
Áferð og útlit var ekki alveg í samræmi við það sem minnið sagði okkur að einkenndi skötusel. En við kurteisir ungir menn létum okkur hafa það, sósan og meðlætið var fínt.
En alla vega heimamaðurinn sem var með okkur fannst það mjög miður að við værum ekki ánægðir með „skötuselinn“.
Þegar heim var komið þá hringdi umræddur heimamaður í okkur og sagðist hafa rætt við veitingamanninn. Það kom víst nokkuð á hann við þessar athugasemdir. Hans skýring var sú að hann hafði verið búinn með skötuselinn og brugðið á það ráð að ná í hlýraflök sem hann átti inn í kæli og framreitt þau sem um skötusel væri að ræða.
Það má alveg velta því fyrir sér hvort þetta sé rétt skýring eða kannski var þetta bara alltaf ætlunin að selja gestum hlýra á skötuselsverði.
Það er alltaf vont að láta plata sig einkum og sér í lagi þegar upp kemst um svindlið.
Þetta er ákkúrat planið sem svindlararnir nota kaupa inn ódýrari tegundir og selja sem dýrar og samkvæmt fjöldanum öllum af rannsóknum þá er ekki óalgengt að um 20-30% sjávarfangs sé ranglega merkt.

Í skýrslu frá Matís kemur m.a. fram þegar greind voru 56 sýni frá veitingahúsum og verslunum hér á landi að 13 sýni eða 23% þeirra voru ranglega merkt.
Þessi íslenska rannsókn kemur alveg heim og saman við það sem er víðast hvar í heiminum.
T.d. tóku umhverfissamtökin Oceana saman niðurstöður úr yfir 200 rannsóknaverkefnum sem til voru árið 2016, rannsóknirnar höfðu að geyma ríflega 25.000 sýni frá 55 löndum. Þessi risa samantekt sýndi fram á að um 20% sýna voru með rangar merkingar.
Sömu aðilar voru á bak við könnun í Kanada árið 2021, af 94 sýnum voru 46% með rangar merkingar. Í Kanada og víðar er fisktegund sem kölluð er „snapper“ stundum „red sbapper“ víða á boðstólum og þykir góður matfiskur og verðlagður eftir því.
Vinsældir þessarar tegundar gefa svindlurum gróðatækifæri eins og kom fram í ofangreindri könnun. Af 13 sýnum merktum heitinu „snapper“ voru aðeins tvö þeirra sem innihéldu þá tegund. Sjö sýni voru „tilapia“ (barri) sem er mjög vinsæl, bragðlítil og ódýr tegund og hentar því vel til svika.
Svo algengt er að nota tilapiu til að svindla á neytendum að hún hefur verið kölluð Meryl Streep fiskanna þar sem hún getur leikið hvaða hlutverk sem er.

Í Seatle í Bandaríkjunum var gerð könnun 2022 og 2023 m.a. á sushi veitingastöðum varðandi lax og uppruna hans. Staðirnir fullyrtu að villtur lax væri notaður en svo reyndist ekki vera því í 23% sýnanna var eldislax – Atlantic (Salmo salar) notaður en ekki villtur Kyrrahafslax.
Svikin eru nánast alltaf á þann veg að þú færð ódýrari fisk í matinn en þann sem er á matseðlinum.
Í Kanadísku könnuninni sem nefnd er hér fyrir ofan kom líka í ljós að tegundir sem merktar voru sem „butterfish“ eða túnfiskur reyndust vera tegund sem kölluð er „escolar“. Þessi tegund er mjög feit og getur valdið alvarlegum meltingarvandræðum svo sem niðurgangi, uppköstum og ógleði. Þessi tegund er víða bönnuð m.a. í Japan.
Svo svindl með tegundir getur svo sannarlega skapað hættu fyrir neytendur.
Síðan eru að finnast í þessum sýnatökum fisktegundir sem bannað er að höndla með vegna þess að þær eru í útrýmingarhættu eða eiga að njóta verndar.

Svona til að ljúka þessari upptalningu um svik þá má nefna það að „The Guardian“ tók saman niðurstöður úr 44 rannsóknum sem höfðu að geyma ríflega 9.000 sýni frá veitingastöðum, fisksölum og verslunum í meira en 30 löndum. Samantektin sýndi fram á að 36% sýnanna voru ranglega merkt.
Í þessari grein „The Guardian“ er einnig vísað í rannsókn sem gerð var á veitingastöðum í 23 löndum Evrópu. Niðurstaðan var að það væru u.þ.b. 50% líkur á því að neytandinn fengi ekki þann fisk sem tilgreindur er á matseðli.
Ég minnist þess alveg að sundum fóru fisktegundir á flakk í vinnslunni forðum daga. Flatfisktegundir gátu alveg villst á kössum, svo ekki sé nú talað um hlýrann sem varð oftar en ekki að roðlausum steinbítsflökum.

Fyrir áhugasama og þá sem vilja vita þá veiddust um 776 tonn af hlýra 2024 og samkvæmt útflutningstölum Hagstofunnar þá fluttum við ekki út eitt gramm af þessari tegund.
Hvert fór þá hlýrinn?
Varð allur hlýrinn að roðlausum steinbítsflökum eða heitir hlýrinn kannski bara „annar fiskur ótalinn annars staðar“?
Það er nefnilega ekki hægt að skrá hlýra-útflutning því það er ekkert tollskrárnúmer til fyrir þessa tegund svo við fáum aldrei að vita hvað varð um hlýrann.
Það er verulega pirrandi svo ekki sé meira sagt að ekki sé í boði að skrá réttar fisktegundir í opinbera gagnagrunna. Þar byrjar kannski tegundasvindlið.