Slóg og þá sérstaklega þorskslóg hefur verið til umfjöllunar í mörgum verkefnum, skýrslum og greinum í gegnum árin. Það er ýmist verið að fjalla um hversu hátt hlutfall fisksins er slóg eða hvernig megi auka verðmæti og nýtingu slógs.

Það hafa oft skapast heitar umræður um þennan hluta auðlindarinnar. Á það t.d. bara að vera í lagi að henda þessum lífrænu efnum í hafið eða hirða sumt og henda öðru?

Samkvæmt viðmiðunartölum reglugerðar um slægingarstuðul þá eru þetta heil 16% af afla þorsks, ýsu  og ufsa.

Árið 2024 var samanlagður afli þorsks, ýsu og ufsa 344 þús.tonn og þar af er slógið 55 þús. tonn samkvæmt slægingarstuðli.

Slóg er innyfli fisksins og samanstendur fyrst og fremst af lifur, maga, skúflöngum og gallblöðru. Kynkirtlarnir það er hrogn og svil verða síðan áberandi hluti í aðdraganda hrygningar.

Lifrin stækkar umtalsvert á vikunum fyrir hrygningu en lifrin leikur lykilhlutverk í að byggja upp orkuforða sem er fiskunum nauðsynlegur fyrir hrygningu.

Fersk lifur (mynd úr safni Matís)

Fisklifur er byggð upp svipað og spendýrslifur og gegnir sömuleiðis margþættu hlutverki svo sem fituefnaskiptum og geymslu A- og D-vítamína. Í lifrinni myndast margvísleg lífræn efni eins og í lifur annarra dýra. Lifrin framleiðir t.d. gallið sem geymt er í gallblöðrunni.

Gallblaðra (mynd úr safni Matís)

Þegar fæða fer um meltingarveginn þá hefur gallið í gallblöðrunni hlutverki að gegna við að sundra fæðunni einkum fitunni.

Þorskmagi (mynd úr safni Matís)

Maginn er fyrsti stoppustaður fæðunnar þar sem niðurbrot fæðunnar hefst. Fremst á þörmunum eru svokallaðir skúflangar. Skúflangarnir auka heildaryfirborð meltingarvegarins umtalsvert og þar fer fram m.a. niðurbrot fæðunnar og uppsog næringarefna.

Skúflangar (mynd úr safni Matís)

Þarmarnir eru áfastir skúflöngunum og eru einnig að brjóta niður fæðuna og skila næringarefnum inn í blóðrásina.

Kynkirtlarnir hrogn og svil tilheyra slóginu og eru eðlilega nokkuð breytilegir að stærð þegar litið er til árstíma. Lesa má meira um svil í póstinum: Svil – soft cod roe – cod milt

Annað líffæri í kviðarholi þorskfiska er svo sundmaginn sem er fastur við hrygginn og fylgir því slægða fiskinum en ekki slóginu.

Sundmagi, en hann er stundum saltaður og fluttur út til S-Evrópu

Ég hef farið lauslega í gegnum nokkrar skýrslur sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Matís hafa gefið út og tengjast rannsóknum á slógi. Í þeim öllum kemur það skýrt fram að árstíminn vegur þyngst þegar breytileiki slóghlutfalls er skoðað.

Í skýrslu Matís „Mælingar og nýting á slógi“ frá 2017 er gerð ágætis tilraun til að flokka helstu líffærin og vigta hvert þeirra. Þannig er mögulegt að áætla hversu mikið af tilteknum líffærum væri hugsanlega hægt að nýta.

Önnur eldri skýrsla frá tímum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins „Slóghlutfall á Íslandsmiðum“ og gefin var út 1997 nýtir gögn frá 1993-1996 úr mjög stóru gagnasafni Hafró.

 Það sem gerir þessi gögn aðeins frábrugðin er að Hafró blóðgar ekki fiskinn fyrir slægingu eins og algengast er.

En gagnasafn Hafró er mjög áhugavert þar sem safninu er skipt niður á mismunandi veiðisvæði og fiskurinn var einnig aldurs- og kyngreindur.

Þannig að þessi skýrsla frá 1997 býður upp á mjög svo fjölbreyttar greiningar, en því miður þá er ekki verið að greina slógið í lifur, hrogn o.þ.h.

Slóghlutfallið breytist líka umtalsvert eftir aldri og stærð fisksins en kyn hafði ekki áhrif samkvæmt þessari skýrslu frá 1997.

Byggt á tölum úr Rf skýrslunni „Slóghlutfall á Íslandsmiðum“ frá 1997

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan og ég útbjó úr þessari skýrslu þá breytist slóghlutfallið eftir mánuðum eins og vel er þekkt. Mikilvægt er að taka það fram að breytileiki milli „eins“ einstaklinga getur verið mikill.

Í skýrslunni „Mælingar og nýting á slógi“  frá 2017 var unnið með afla sem fékkst af miðum suður af landinu á tímabilinu janúar 2015 til júní 2016.

Vel á fjórða hundrað fiskar voru skoðaðir og mældir og í gögnum sem nýtt voru til að setja saman þessa skýrslu kemur m.a. eftirfarandi fram.

Í lok febrúar og mars 2016 voru skoðaðir og mældir 95 þorskar.

Slóghlutfallið var að meðaltali 24%, lægsta gildið var 16% og það hæsta var 32% þannig að breytileikinn er töluverður.

Af þessum 95 þorskum voru 64 hængar og 31 hrygna.

Hængarnir voru að meðaltali 8,7 kg fyrir slægingu og 6,6kg slægðir þannig að slóghlutfall þeirra var um 24%.

Hlutur lifrarinnar í slóginu var 25% eða um 6% af óslægðum fiski.

Svilin sem hlutfall af slógi var um 56% en um heil 14% af óslægðum þorski.

Hrygnurnar voru að meðaltali 9,3kg fyrir slægingu og 7,2kg eftir slægingu þannig að slóghlutfall þeirra var um 23%.

Hlutur lifrarinnar í slóginu var um 37% eða rúm 8,% af heilum fiski.

Hrognin sem hlutur af slógi var 37% og rúm 8% af heilum fiski.

Eins og sjá má er töluverður munur á hæng og hrygnu, heildarmagn slógs er svipað en hrygnurnar virðast vera með hlutfallslega stærri lifur en hængarnir og svilin virðast vega töluvert meira en hrognin.

Annað slóg magi, gallblaðra og skúflangar sem almennt er ekkert nýtt er um 4-7% af óslægðum fiski ef tekið er mið af þessu sýni sem var fengið í febrúar og mars 2016.

Miðað við aflatölur 2024 en þá voru veidd 222 þús. tonn af þorski þá eru þetta 10-15 þús. tonn af lífrænum efnum sem fara að mestu forgörðum ár hvert.

Það skiptir kannski ekki öllu máli hvað veldur því eitt er víst að magnið sem hverfur í hafið er umtalsvert svo það er kannski heilmikill sannleikur í þessu gamla máltæki að „sá sem hefur nóg þarf ekki að slíta slóg“.