Hvað eru gellur? Stutta skýringin er vöðvi í fiskhaus, notaður til matar.
Það er mikið rétt en það er samt áhugavert að velta fyrir sér af hverju gellur heita gellur.
Gellur eru víðast hvar erlendis kallaðar fisktungur enda eru þær tungur fisksins eða þannig.

Í bókunum glæsilegu Íslenskir sjávarhættir er höfundurinn Lúðvík Kristjánsson helst á því að þetta gelluheiti hafi orðið til hjá íslenskum sjómönnum sem stunduðu sjóinn á dönskum þilfarskipum. Lúðvík útskýrir það ekki frekar.
Það er svo sem ekki ólíklegt að þetta sé úr dönsku nema hvað gellur heita „fisktunger“ á dönsku.
Aftur á móti gæti gelluheitið hafa orðið til vegna lélegrar dönskukunnáttu eða misskilnings. Á dönsku heita tálknin „gæller“ hljómar ekki ósvipað og gellur.
Gellur eða „gæller“ þarna er skýringin á gelluheitinu kannski komin þó gellur og „gæller“ eru sitthvað.

- Íslenska – Gellur
- Danska – Fisktunger
- Enska – Fish tongues
- Þýska – Fischzunge
- Norska – Fisketunger
- Sænska – Fisketungor
- Hollenska – Vistongen
- Ítalska – Lingue di pesca
- Spænska – Lenguas de pescado (cocochas)
- Portúgalska – Linguas de peixe (cocochas)
- Franska – Langues de poisson
Gellan er reyndar tveir beinlausir vöðvar í fiskhausnum sem eru fastir við hökuna og tengjast svo tungubeini að aftan.
Þegar gellan er skorin frá hausnum fylgir roð sem kallað er gelluroð eða kúaroð (Íslenskir sjávarhættir 4. bindi bls 384-5). Stundum fylgir hið einkennandi skegg þorsksins með en það er kallað Pétursskegg eða Pétursangi.
Í bókunum hans Lúðvíks Kristjánssonar um íslenska sjávarhætti er svolítið fjallað um gellur. En hann telur að gellun hafi ekki verið mikið stunduð hér á landi fyrr en með tilkomu þilskipanna.
Á þessum skipum voru gellurnar aukahlutur skipstjórans og gekk hann því hart eftir að allir hausar væru gellaðir.

Það hefur aukist töluvert að gella hausa í fiskvinnslufyrirtækjum áður en hausarnir eru settir í þurrkun. En ferskar eða saltaðar gellur er vinsæll og verðmætur matur á okkar helstu saltfiskmörkuðum.
Vonlaust er að fá ítarlegar upplýsingar um magn útflutnings hvað gellur varðar vegna þess að vörulýsingar Hagstofunnar og tollskrárnúmerakerfið býður ekki upp á alvöru greiningu.
Vörutegundirnar sem innihalda gellur og kinnar eru eftir farandi skv. vef Hagstofunnar:
- Fryst þorskfés og þorskkinnar
- Frystar gellur af fiski af þorskaætt
- Frystar gellur af öðrum fiski en þorskættar
- Saltaðar gellur af þorski
- Söltuð þorskfés (gellur og kinnar)
- Saltaðar gellur af öðrum fiski en þorski
- Söltuð fés (gellur og kinnar) af öðrum fiski en þorski.
Sem sagt útflutningur gelluafurða í bland við kinnar og fés var samtals um 1.200 tonn árið 2024. En 2002 voru flutt út um 200 tonn af gellu- og kinnaafurðum svo aukningin síðustu tvo áratugina er umtalsverð.