Fiskur og kaffi

„Blessaður Palli, hvernig gekk ferðin? Eigum við ekki að fá okkur einn kaffi áður en við skellum okkur í verkefni dagsins“

Oftar en ekki var mér heilsað á þennan eða svipaðan máta þegar ég mætti til að vinna verkefni í fiskvinnsluhúsum hér á árum áður og enn þann dag í dag kemst ég ekki í gang fyrr en ég er búinn að innbyrða að minnsta kosti einn bolla, stundum tvo.

Tengingin fiskur og kaffi er í sjálfu sér ekki miklu flóknari en þetta.

Reyndar drekk ég enn mjög mikið kaffi og borða fisk mjög oft og það skemmir svo sannarlega ekki fyrir að fiskur og kaffi eru mjög góð hollustumatvæli að margra mati.

Vorið 1981 lauk ég námi í matvælafræði frá Háskóla Íslands og alla tíð síðan hef ég unnið allskonar störf sem tengjast vinnslu sjávarafurða með einum eða öðrum hætti. Bara svona til að nefna eitthvað af öllum þeim fjölbreyttu verkefnum sem ég sinnti má nefna niðursuðu, frystingu, ferskfiskvinnslu, bolfiskvinnslu, flatfiskvinnslu, síldar- og loðnufrystingu, uppþíðingu, vöruþróun, framleiðslustjórnun, gæðastjórnun, sölu- og markaðsmál, rannsóknir, gerð fræðsluefnis og margt fleira.

Skömmu eftir aldamótin var ég starfsmaður stýrihóps sjávarútvegsráðuneytisins um aukin verðmæti sjávarfangs. Stýrihópurinn lagði m.a. til stofnun AVS sjóðsins og stýrði ég rekstri sjóðsins fyrstu átta árin.

Sjö nafnspjöld en í raun bara fjögur fyrirtæki – vantar að vísu spjald frá Sjólastöðinni. Ég hef s.s.starfað hjá fimm fyrirtækjum eftir námið í matvælafræðinni.

Síðustu árin sem ég starfaði hjá Matís, tók ég saman töluvert af fræðsluefni tengt framleiðslu sjávarafurða og nú þegar ég er kominn á kaup hjá sjálfum mér datt mér í hug hvort ekki væri hægt að endurlífga þetta efni og koma því á framfæri með öðrum hætti.

Og það er akkúrat það sem ég ætla m.a. að dunda mér við á þessum vettvangi og þá væri nú hvetjandi að fá smá viðbrögð frá ykkur sem eru til í að fylgjast með mér á þessari vegferð.

Endilega sendið mér ábendingar og ég er alveg til í að taka við frásögnum, myndum og upplýsingum frá ykkur til að birta eða vinna með.

Markmiðið með þessu öllu er að fjalla á upplýsandi og vonandi áhugaverðan máta um vinnslu, nýtingu og afurðir sjávarfangs.

Hjá Matís var Þormóður Dagsson mér innan handar við að koma þessari bloggsíðu á koppinn og kann ég honum og Matís bestu þakkir fyrir það. En allt efnið er úr mínum penna komið og á mína ábyrgð nema annað sé tekið fram.

Hægt er að senda mér póst á netfangið: pallgunnar@simnet.is

Einnig er ég alveg til í spjall og síminn er: 853 1952

Síðan má hafa samband í gegnum facebook og messenger.

Eigandi og ábyrgðarmaður þessa vefsvæðis er Páll Gunnar Pálsson, matvælafræðingur