Saltfiskur

Saltfiskur hefur verið rannsakaður og skoðaður af mörgum sérfræðingum í áratugi enda hefur saltfiskur í ýmsu formi skipað mikilvægan sess í íslenskum sjávarútvegi. Vöruþróun og rannsóknir hafa þróað framleiðsluferli umtalsvert síðustu áratugina.

Söltun er tiltölulega langt verkunarferli sem tryggir varðveislu fisksins um leið og áferð og bragð breytist og þroskast á einstakan máta, ekki ólíkt því sem gerist við ostaframleiðslu eða ýmsa aðra verkun matvæla.

Dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir matvælafræðingur vann við saltfiskrannsóknir um árabil og lauk doktorsprófi að rannsóknum loknum. Gerð þessarar saltfiskhandbókar og samantekt efnisins var að stórum hluta í höndum Kristínar Önnu en ég kom síðan að verkinu þegar raða þurfti saman textanum, afla mynda o.fl. Einnig var stuðst töluvert við Saltfiskhandbók sem Dr. Jónas Bjarnason efnaverkfræðingur tók saman fyrir nokkrum áratugum meðan Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins var og hét.

Lárus Karl Ingason ljósmyndari tók megnið af myndunum í bókinni.

Hér má nálgast Saltfiskhandbókina. Ef tengillinn virkar ekki má alltaf hafa samband við mig og ég redda málunum.

Allar verslanir eru fullar af léttsöltuðum frystum fiski sem á lítið skylt við hefðbundinn saltfisk. Ég er alinn upp við það að borða klassískan saltfisk með hamsatólg í hádeginu alla laugardaga og mér finnst ekki mikið til þessarar léttsöltuðu afurðar koma. Mér fannst því upplagt að setja saman bæklinginn „Hvernig bý ég til góðan saltfisk?“ til að koma þessum klassíska betur á kortið.

Léttsaltaður frystur fiskur sem margir leyfa sér að kalla saltfisk er ekkert annað en ferskur frosinn fiskur sem bætt hefur verið í um 1-2% salti sem er svipað saltinnihald og fersk fryst rækja inniheldur og ekki er hún kölluð saltrækja! Þetta er bara temmilegt saltmagn fyrir vöru sem er tilbúin til eldunar.

Bæklingurinn okkar sýnir tiltölulega auðvelda aðferð til að búa til saltfisk heima, ég hef margoft reynt þessa aðferð og hún hefur skilað toppsaltfiski í hvert sinn.

Hér má nálgast bæklinginn: Hvernig bý ég til góðan saltfisk? Ef tengillinn virkar ekki má alltaf hafa samband við mig og ég redda málunum.

Skrifaðu ummæli