Ég hef lengi haft áhuga á að búa til einfalt og skilvirkt kerfi fyrir vöruheiti eða vörulýsingar íslenskra sjávarafurða og þessar pælingar mínar með „hugtakasafn fyrir fiskiðnaðinn“ eru liður í því.
Í gegnum árin hef ég lagt mig fram um að greina útflutning og búa til myndir sem sýna þróun og verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi. Það verður að segjast eins og er að það hefur reynst þrautin þyngri að draga fram upplýsingar sem standast skoðun um einstakar tegundir og afurðir.
Tollskráin er notuð sem grunnur til að flokka sjávarafurðir hvort sem um inn- eða útflutning er að ræða og í mjög stuttu máli þá nær þetta kerfi engan veginn að gefa skýra mynd af vörum og verðmætum í íslenskum sjávarútvegi.
Hagstofa Íslands tekur við upplýsingum frá Tollinum og raðar þeim upp og flokkar og það er ekki að sjá að upplýsingarnar verði nokkuð betri við það.
Ég ætla mér ekki að fara ítarlega í gegnum þetta kerfi í þessum inngangi en ég tók saman skýrslu ásamt öðrum fyrir rúmum tíu árum sem kölluð var „Aukin verðmæti gagna“. Það er ekki að sjá að nein breyting hafi átt sér stað síðan þá.
Hér ætla ég aðeins að nefna nauðsyn þess að hugtakanotkun sé samræmd og að ólíkir aðilar leggi sama skilning í vörulýsingar svo að sömu afurðir lendi í sama tollnúmeri hjá öllum útflytjendum.
Til þess að ná slíku fram er nauðsynlegt að hafa gott aðgengi að lýsingum hugtaka í máli og myndum. Fyrir rúmum tíu árum tók ég saman rit sem ég kallaði „Hugtakasafn fiskiðnaðarins“. Það hefur aldrei verið gefið út formlega en samt farið eitthvað á flakk í bransanum og fengið ágætis viðtökur.
Hér á þessum vettvangi ætla ég að vinna áfram með þetta hugtakasafn mitt og vonandi fæ ég ábendingar og betri myndir eftir því sem við á.
Tengt hugtakasafninu er nokkuð sem ég hef kallað vörulýsingaspjald sem svarar nokkurn veginn til þess sem er að finna í tölvukerfum margra framleiðenda.
Hugtökin sem ég notaði í þetta vörulýsingaspjald eru mörg hver að finna í tollskránni en hún er jú tengd alþjóðlegu flokkunarkerfi „Harmonized System“ frá „World Custom Organization“ og TARIC skrá Evrópusambandsins.
Ég reyndi að búa til yfirkafla þannig að aðeins einn valmöguleiki kæmi til greina fyrir hverja vöru.
Ef t.d. er um heilan fisk að ræða þá eru fjórir stakir möguleikar:
-
- Óslægður: Heill fiskur með haus og innyflum
- Slægður með haus: Heill fiskur með haus sem búið er að slægja þ.e. fjarlægja öll innyfli
- Hauslaus með klumbu: Heill hausaður fiskur þar sem klumba og eyruggi fylgja bol, slægður
- Hauslaus án klumbu: Heill hausaður þar sem klumba er látin fylgja haus, slægður
Ef lesendur sjá fleiri valmöguleika fyrir heilan fisk þá væri það vel þegið.
Þegar kemur að flökum og flakaafurðum þá fjölgar vörumöguleikum umtalsvert:
Heil flök, flakabitar, bakflak / spegilflak, sporðar, hnakkar, þunnildi, miðstykki, afskurður, marningur, flattur, samflök, börð og rafabelti.
Þannig held ég áfram að raða upp öllum hugsanlegum hugtökum og heitum með skýringum og myndum og vonandi tekst mér að koma saman hentugu hugtakasafni fyrir fiskiðnaðinn og þar með koma betra skikki á vörulýsingar og skráningar sem kannski skila sér í vöruheitaskrá Tollsins og Hagstofunnar.
Síðan er tilvalið að reyna að finna rétta eða besta heimilisfangið fyrir afurðirnar í númerakerfi íslensku og alþjóðlegu tollskránni.
Ég mun síðan taka fyrir alla þessa flettiglugga og þá möguleika sem þar eru að finna og þegar þeirri yfirferð er lokið er orðið til „fullkomið“ hugtakasafn fiskiðnaðarins með orðskýringum og myndum.
Til þess að fullkomna verkið þá þarf myndir og heimildir myndasmiða svo ég óska hér með eftir myndum sem nota má og gefa skýra mynd af því sem við á hverju sinni.
Upplýsingar til að hafa samband eru undir flipanum “Um síðuna“
Recent Comments