Neytendum finnst örugglega ekki spennandi að fá dansandi hringorm á diskinn sinn. Þó allt sé gert til að fjarlægja orma og sníkjudýr sem eru í fiski áður en hann kemst á borð neytenda. Þá er útilokað að ná þeim árangri að aldrei finnist ormur í endanlegri vöru.

Það er vitað hvað gera skal til að enginn lifandi ormur sé á disknum okkar og að einhver þurfi að upplifa það sem er fjallað um í greinum í Læknablaðinu frá 2006 og 2022

Á mínum yngri árum var fiskur æði oft á matseðlinum, soðin þverskorin ýsa, steikt lúða, saltfiskur, rauðmagi, hrogn og lifur og einstaka sinnum steikt síld.

Það þótti ekkert tiltökumál þó maður rækist á orma í fiskinum, maður bara setti þá til hliðar eins og beinin og kláraði matinn.

Þennan rétt borðaði ég í hádeginu alla laugardaga meðan ég dvaldi í foreldrahúsum og æði oft rakst maður á orm eða orma án þess að það truflaði matarupplifunina

En hvað um það hringormar og fiskur er ein af staðreyndum tilverunnar og ormarnir geta ekki án fisksins verið og við ekki án fisksins.

Margir halda reyndar að hringormar heiti hringormar vegna þess að þeir eru oft upprúllaðir í hringi í fiskinum, en það er nú ekki svo. Þeir heita hringormar vegna þess að lífsferill þeirra er einskonar hringrás milli dýra í sjó.

Hringormaumræðan snýst fyrst og fremst um selorm (Pseudoterranova decipiens) og hvalorm (Anisakis simplex). Selormur hefur einnig verið kallaður þorskormur og hvalormur síldarormur.

Einkennandi fyrir hringorma er hringrás þeirra á milli dýra í sjó og þaðan kemur nafnið.

Hringormarnir berast á milli dýra þannig að stærri dýr éta minni dýr sem sýkt eru af hringormum. Þeir berast eftir fæðukeðju hafsins frá smáum krabbadýrum til fiska og svo til dýra sem éta fiska svo sem sjófugla, sela og hvala.

Hringormarnir þroskast af einu lirfustigi í annað á þessari leið milli dýra. Ránfiskar, sjófuglar, selir og hvalir bera hringorma á kynþroskastigi og þar fer æxlun ormanna fram.

Mynd úr ferskfiskbókinni á heimasíðu Matís

Útselurinn hefur verið útmálaður sem aðalsökudólgurinn í þessu ormaveseni.

Því var farið í þá vegferð að reyna að endurhanna náttúruna og borga mönnum fyrir að drepa seli til að fækka ormum í fiski. Sett var á laggirnar svokölluð hringormanefnd sem tók sér það vald að nú skyldi sel fækkað við strendur landsins. Veiðimenn fengu greitt fyrir drápin með því að skila inn kjálka dýranna.

Þessir aðilar sem stóðu að hringormanefnd höfðu áhuga á því að framleiða og flytja út ómengaða íslenska vöru og stuðla að jafnvægi í íslenskri náttúru.

Það er ansi mikið vald sem menn taka sér þegar þeir ætla að stuðla að jafnvægi í íslenskri náttúru og æði margar spurningar sem vakna.

Rökin með þessari vegferð var einkum sú að mikið fé myndi sparast við snyrtingu flaka. Og aukabónusinn væri sá að færri fiskar yrðu étnir af selum og því meiri veiði framundan.

Þetta var „jafnvægi“ íslenskrar náttúru sem hringormanefndin sá í hyllingum.

Snyrting flaka er vandasamt og mikilvægt verk ©Lárus Karl Ingason ljósmyndari

Það er bara allt galið við svona hugmyndir og nú birtast hugmyndir um að fækka þurfi hvölum svo við getum veitt meira af loðnu. Er það kannski hið nýja jafnvægi íslenskrar náttúru?

Nú er landselurinn friðaður þar sem hann er innan við einn þriðja af því sem hann var á dögum hringormanefndarinnar. Útselsstofninn hefur minnkað um helming á svipuðum tíma.

Þarf eitthvað að ræða það frekar að svona gerir maður ekki. Við endurhönnum ekki náttúruna án þess að það hafi afleiðingar.

Hringormar hverfa ekki þó selnum fækki og þó sumir sérfræðingar telji að ormur hafi minnkað í fiski með fækkun sela. Þá er ormurinn þarna ennþá og það þarf að snyrta flökin með sama hætti og áður.

Ljósabor’ðið skiptir miklu máli við leit að ormum ©Lárus Karl Ingason ljósmyndari

Meðan ormur er til staðar þá eru alltaf ákveðnar líkur á að einhverjir slíkir sleppi í gegn á vinnslulínunni og neytandi finni orm þrátt fyrir allt sé gert til að koma í veg fyrir slíkt.

Vitað er að sum matvæli þarf að umgangast með ákveðnum hætti til að tryggja heilnæmi og öryggi neytenda. Ég held að flestir séu meðvitaðir um það að borða ekki illa eldaðan kjúkling því þar er ákveðin hætta vegna örverumengunar.

Við biðjum aldrei um léttsteikt svínakjöt vegna þess að svín geta verið með þráðorma sem gætu þrifist í mönnum (Vísindavefur HÍ) Svo blóðug svínasteik er ekki í boði.

Af hverju upplýsum við ekki neytendur betur um orma í fiski við vitum nefnilega hvað skal til svo þeir valdi ekki óþægindum eða veikindum.

Kannski hefði verið meira vit í að upplýsa kaupendur og neytendur um sníkjudýr í fiski en að reyna að breyta náttúrunni með fækkun sela.

Ormar drepast við hefðbundna söltun ©Lárus Karl Ingason ljósmyndari

Ófáar hringorma tilraunir og rannsóknir hafa verið unnar í gegnum árin og ýmsir hafa reynt fyrir sér með allskonar tækni til að finna orminn og fjarlægja. En sú tækni er ekki fundin svo ljósaborð og fimir fingur er sú lausn sem hefur virkað fram til þessa og virkar enn.

En staðreyndin er sú að þó hvert einasta flak og hver einasti flakabiti sé skoðaður og gegnumlýstur þá er alltaf eitthvað sem sleppur í gegn. Hér er ekki til 100% árangur og verður sennilega aldrei.

Afstaðan í gegnum tíðina hefur verið að reyna að fjarlægja orminn og gera svo sem minnst til a vekja athygli á honum gagnvart neytendum.

Vandinn hverfur ekki þó þú talir ekki um hann.

Ég minnist þess að einu sinni fengum við kvörtunarbréf frá neytenda sem hafði næstum dáið úr viðbjóði þegar ormur fannst í fisknum hans. Dramatíkin var með ólíkindum, við hefðum næstun banað allri fjölskyldunni ef ormurinn hefði ekki fundist áður en snætt var.

Það hafa verið búnir til hræðsluáróðursþættir varðandi sníkjudýr í fiski. Eftir einn slíkan í Þýskalandi þá hrundi útflutningur á ufsa á þann markað um tíma. Enda kannski skiljanlegt þegar birtar eru  risastórar myndir af spriklandi ormum sem þú gætir hugsanlega borðað ef þú færð þér fisk í matinn.

Hringormar geta leynst í öllum tegundum fiska ©Lárus Karl Ingason ljósmyndari

Útflytjendur voru ekki tilbúnir með plön til að sannfæra neytendur um að engin hætta væri á ferðum. Engar tiltækar upplýsingar til taks um „meinleysi“ hringorma ef rétt er staðið af meðhöndlun fisksins.

Vel upplýstir neytendur eru mikil verðmæti.

Reglurnar eru einfaldar og öllum færar.

  1. Frysting drepur ormana (-20°C í 24klst)
  2. Nota bara áður frystan fisk í sushi
  3. Eldun drepur ormana (>60°C í eina mínútu)
  4. Söltun, sbr. klassískur saltfiskur, drepur ormana

Um þetta allt má lesa nánar í reglugerð: COMMISSION REGULATION (EU) No 1276/2011

Write A Comment