Frysting og pökkun

Nokkur hugtök sem lýsa pökkun afurða og aðferðir við frystingu

Blokk

Fish block

Blokk 16,5 lb (geta verið aðrar þyngdir) er „einsleitur“ massi, yfirleitt roðlaust og beinlaust hráefni, flök, bitar, marningur eða blanda þessa. Fryst í láréttum plötufrystum og sérstökum blokkarrömmum sem tryggja rétt ytri mál og lögun. Umbúðir eru sérsniðnar plast- eða vaxhúðaðar öskjur


Vafningar

Cello pack, wrapped

Flök og bitar vafðir inn í plastarkir eða umslög og raðað í öskjur eða pönnur og fryst í láréttum plötufrystum. Askja eða ytri umbúðir hafa fasta þyngd og fastan fjölda vafninga, meðan vafningarnir geta verið með ákveðnum breytileika í þyngd.


Millilagt / bárupakkað

Interleaved, layerpacked / shatterpacked

Um er að ræða heilan fisk, hauslausan, flök eða flakabita pakkaða í öskju eða pönnu með plastörkum á milli laga og fryst í láréttum plötufrystum.


Raðað

Aligned packaging

Eru ýmsar vörur án millilagningar, frystar í öskjum eða plastpokum og láréttum plötufrystum. Pönnur, rammar og umbúðir stýra ytri málum vörunnar.


Óraðað

Non-aligned packaging

Eru ýmsar vörur án millilagningar, t.d. síldaflök, heil loðna, hrogn, afskurður ofl. fryst í öskjum eða plastpokum og láréttum plötufrystum eða án umbúða í lóðréttum plötufrystum.


Lausfryst

Individually quick frozen (IQF)

Afurðir þar sem heilir fiskar, flök og flakabitar eru frystir hver fyrir sig í færabanda frystum eða frystiskápum. Undantekningalítið íshúðaðar (glasseraðar) vörur.


Blásturfryst

Blast freezing / Blast frozen

Afurðir sem búið er að pakka í umbúðir fyrir frystingu og eru frystar án pressu í hraðfrystiskápum eða færibandafrystum.